Átök Það sló í brýnu milli Ísraelsmanna og Palestínumanna í Ramallah.
Átök Það sló í brýnu milli Ísraelsmanna og Palestínumanna í Ramallah. — AFP
Ísraelski herinn leitaði í gær logandi ljósi á Vesturbakkanum að Palestínumanni sem myrti tvo ísraelska hermenn í fyrradag.

Ísraelski herinn leitaði í gær logandi ljósi á Vesturbakkanum að Palestínumanni sem myrti tvo ísraelska hermenn í fyrradag. 17 ára unglingur, Mahmoud Nakhla, var skotinn til bana í aðförum hersins, og kom víðsvegar til skæra, þar sem Palestínumenn vopnaðir slöngvivöðum grýttu hermenn og kveiktu í dekkjum.

Hermenn gerðu húsleitir í borginni Ramallah á Vesturbakkanum í bæði gær og fyrradag í leit að sökudólgnum, en þetta var þriðja banvæna árásin á Ísraelsmenn á Vesturbakkanum á síðustu tveimur mánuðum. Leiddi árásin til mótmæla meðal ísraelskra landnema á Vesturbakkanum gegn Benjamín Netanyahu forsætisráðherra. Fjölmiðlar í Ísrael veltu í gær upp möguleikanum á að ný palestínsk uppreisn eða „intifada“ gegn landnemabyggðunum væri í bígerð. Mótmæli sem Palestínumenn höfðu skipulagt í gær reyndust hins vegar fámennari en gert hafði verið ráð fyrir.

Ísraelski herinn greindi frá því að hann hefði handtekið 40 Palestínumenn, en flestir þeirra eru tengdir Hamas-samtökunum, en forvígismenn þeirra hafa sagt samtökin ábyrg fyrir tveimur nýlegum skotárásum í Ísrael, þar sem þrír létust, þar á meðal kornabarn. Þeir hafa hins vegar ekki lýst yfir ábyrgð á árásinni í fyrradag á hendur sér.