Ekki kom það mér á óvart að KSÍ skyldi ekki fá úthlutun úr Afrekssjóði ÍSÍ. Þegar sjóðurinn stækkaði, vegna ákvörðunar þarsíðustu ríkisstjórnar, var sett á laggirnar nefnd undir forystu Stefáns Konráðssonar.
Ekki kom það mér á óvart að KSÍ skyldi ekki fá úthlutun úr Afrekssjóði ÍSÍ. Þegar sjóðurinn stækkaði, vegna ákvörðunar þarsíðustu ríkisstjórnar, var sett á laggirnar nefnd undir forystu Stefáns Konráðssonar. Mótaði hún hugmyndir um hvernig heppilegt væri að standa að úthlutun úr sjóðnum og skilaði af sér ágætri skýrslu. Ég man ekki betur en þar hafi verið lögð áhersla á að sérsambönd sem eru sjálfbær fái ekki úthlutun úr sjóðnum. Var KSÍ þar nefnt en einnig voru GSÍ og ÍF nefnd sem sambönd sem væru nærri því að verða sjálfbær.

Persónulega skil ég ekki almennilega hvaða hugsun býr að baki því hjá forystufólki okkar í knattspyrnuhreyfingunni að sækja um almannafé þegar ársreikningur sýnir handbært fé á milli 600 og 700 milljónir. Mér þykir rökstuðningur um að ákveðin verkefni séu ekki sjálfbær vera léttvægur.

KSÍ er svo heppið að hafa geysilegar tekjur vegna ytri aðstæðna. Við höfum ekki stjórn á þeim aðstæðum hér á Íslandi en mjög dýrmætt er fyrir íþróttahreyfinguna að fjölmennasta íþróttagreinin þurfi engar áhyggjur að hafa. Afrekssjóður hjálpar hins vegar öðrum sérsamböndum að láta dæmið ganga upp. Starf margra sérsambanda hangir á horriminni og þurfa þau virkilega á þessum fjármunum að halda. Einmitt þess vegna ákváðu stjórnmálamenn að gerbreyta sjóðnum sem áður gerði takmarkað gagn. Ég trúi því varla að stjórnarfólk í KSÍ hafi fjarlægst grasrótina í íslensku íþróttalífi svo heiftarlega að þau komi ekki auga á þetta.

Innan KSÍ eru kóngarnir og drottningarnar í íþróttahreyfingunni og þurfa ekki að hafa þær áhyggjur sem aðrir hafa í hreyfingunni. Farsælt kóngafólk ríkir með þeim hætti að stíll sé yfir.