Ekki er víst að það þætti nógu „róttækt“ að dreifa heimsþekktri heilsuvöru yfir valdamenn þjóðarinnar í dag, líkt og Helgi heitinn Hóseasson gerði árið 1972. Alltént þyrfti það að vera vel sykrað.
Ekki er víst að það þætti nógu „róttækt“ að dreifa heimsþekktri heilsuvöru yfir valdamenn þjóðarinnar í dag, líkt og Helgi heitinn Hóseasson gerði árið 1972. Alltént þyrfti það að vera vel sykrað. — Ljósmynd/Kristinn Benediktsson
Skyr hefur haldið lífinu í landanum, ásamt þeim gula og blessuðum lömbunum um aldir og eilífð. Á dögunum ákvað ég að nýta skyrið til að stemma mig af en það vakti líka áhuga á hlutverki skyrs í þjóðarsögunni.

Ég hef engar heimildir fundið um að Jóhannes úr Kötlum hafi verið mikið fyrir heilsurækt, jafnvel þótt hann hafi búið í Hveragerði þar sem sjálft Heilsuhælið (heitir nú Heilsustofnun NLFÍ) var stofnað árið 1955, sama ár og Sjödægra kom út. Þar kveður skógarmaðurinn og segir líf sitt blakta „á einni mjórri fífustöng“ og kannski vísar skáldið til eftirsjár vegna lítillar heilsuræktar í gegnum árin, en óvíst er að bókmenntafræðingar bekenni það. En Jóhannes hefur þó verið mér hugleikinn að undanförnu, ekki aðeins vegna kveðskapar síns um jólaveinana, sem flestir Íslendingar halda mikið upp á, heldur einkum vegna braglínanna um áttunda sveininn – Skyrgám. Mér verður reyndar hugsað reglulega til þess sveins, þegar ég skófla í mig skyrinu, en meira um það hér aðeins neðar.

Var karlinn meðvitaður?

Eins og flestir vita í dag er skyr afar prótínrík fæða og það er ástæða þess að þessi landbúnaðarafurð fer nú sigurför um heiminn. Allir þeir sem stunda heilsurækt gera sér grein fyrir mikilvægi prótíns fyrir uppbyggingu vöðva og þá bætir enn úr skák að skyrið er uppfullt af öðrum bætiefnum á borð við kalk og fosfór. En var Jóhannes úr Kötlum meðvitaður um hið mikla heilnæmi þessarar vöru? Raunar er ýmislegt sem bendir til þess.

Í ljóði sínu um Skyrgám (sem hann nefnir Skyrjarm, í boði hefðarinnar) lýsir hann sveininum sem miklu heljarmenni. Hann er „skelfilegt naut“ og þar sem hann sækir í skyrið brýtur hann hlemminn ofan af sánum með berum hnefanum. Og lýsing Jóhannesar er líka raunsönn þegar kemur að lýsingu á skyrinu sjálfu því þegar Skyrgámur hefur hámað í sig herlegheitin stendur hann „á blístri“ og stynur og hrín. Slík lýsing getur vel átt við þegar mikil neysla prótínríkrar fæðu er annars vegar. Það þekki ég vel!

Það geri ég einkum vegna þess að nú á dögunum gerði ég litla og fremur meinlausa tilraun með neyslu skyrs. Ég fann að ég var farinn að staðna í þyngd og ég rakti það fyrst og fremst til þess að ég hafði slakað nokkuð á mataræðinu. Æfingarnar í sama ágæta farveginum en aðeins meira af óhollustu og skammtarnir kannsi 10% of stórir.

Hámaði í mig skyr í þrjá daga

Tilraunin fólst í því að borða 1 kíló af skyri á dag í þrjá daga. Hálft kíló í morgunmat og annað eins í hádeginu. Það kann að hljóma mikið, en er í raun ein dós af skyri í hvort sinn. Markmiðið var því að borða 3 kíló af skyri á þremur dögum. Eina skilyrðið, að magninu undanskildu, að um væri að ræða sykurskert skyr, þ.e. vöru með minna en 5 g af sykri í hverjum 100 g.

Með þessari sérstöku næringarinntöku tryggði ég eftirfarandi. Tvær af þremur meginmáltíðum dagsins innihéldu í heildina um 600 hitaeiningar, en það er þriðjungur af markmiði dagsins. Þá skipti ekki máli þótt kvöldverðurinn færi jafnvel upp í 1.200 hitaeiningar – sem hann aldrei gerði þessa þrjá daga. Hálft kíló af skyri er auk þess afar seðjandi, raunar svo mjög að maður „stendur á blístri“ og þarf að hafa sig allan við svo maður fari ekki að „stynja og hrína“ eins og Skyrgámur forðum.Þótt ótrúlegt megi virðast þá má tryggja ákveðna fjölbreytni þegar kemur að skyrmaraþonáti af þessu tagi. Því ræður sú staðreynd að skyrframleiðendur eru nú farnir að bjóða upp á margar góðar bragðtegundir sem innihalda lítið sykurmagn. Þar má nefna, bökuð epli, banana, créme brúlée, bláber og hindber og auðvitað vanillu. Það verður að viðurkennast að ég var kominn með þokkalega nóg af skyri þegar ég sporðrenndi síðustu skeiðinni af bökuðu eplunum í hádeginu á miðvikudegi í þessu sérstæða átaki. En með tilrauninni hafði ég núllstillt mataræðið, minnkað skammtana og tekið inn óheyrilegt magn af próteini. Ég var auk þess 1,3 kílóum léttari að dögunum þremur liðnum en áður en skyrátið hófst. Það skemmdi alls ekki fyrir.