[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á fjölfarinni breiðgötu í Harlem má finna Red Rooster, afar vinsælan veitingastað í eigu hins heimsþekkta sænska kokks Marcusar Samuelssonar. Þar er bragðmikill suðurríkjamatur borinn fram í lifandi og litríku umhverfi. Ljósmyndir og texti Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Mitt í hjarta Harlem fann hinn heimskunni sænski kokkur Marcus Samuelsson stað fyrir veitingastað sinn Red Rooster.

Samuelsson fæddist í Eþíópíu en var ættleiddur af sænskum hjónum þegar hann var þriggja ára. Löngu síðar flutti hann til New York og gerðist yfirmatreiðslumeistari á Aquavit í New York. Hann var sá yngsti til að fá þrjár stjörnur í New York Times, aðeins 24 ára. Samuelsson hefur flakkað víða um heim en fann sig best í Harlem og þar býr hann í dag og rekur þrjá veitingastaði, en auk þess á hann veitingastaði víða annars staðar, á Bermúda, í Svíþjóð, Bretlandi og nokkrum borgum Bandaríkjanna.

Alþýðumatur með sænsku ívafi

Á Red Rooster færir Samuelsson bandarískan alþýðumat upp á hærra plan. Þar er hægt að fá sér grillaðan kjúkling, hamborgara og grillaðar rækjur en einnig er þar að finna reyktan lax og sænskar kjötbollur sem hann tileinkar ömmu sinni sænsku. Maísbrauðið hans með hunangssmjörinu er orðið frægt og tilvalið í forrétt til að seðja sárasta hungrið.

Staðurinn iðar af lífi og tónlist en þar er fullt út úr dyrum alla daga. Á kvöldin er oft lifandi tónlist og mikil stemning á barnum. Kokkurinn frægi á það til að koma þar við þrátt fyrir annríki víða um heim og þegar blaðamann bar að garði stóð hann þar sjálfur og tók á móti gestum.

Óhætt er að mæla með matnum þarna og skemmtilegu stemningunni sem þar er að finna.