Bráðum koma blessuð jólin og börnin fara að hlakka til. En það eru ekki bara börnin sem hlakka til jólanna eins og alkunna er.

Bráðum koma blessuð jólin og börnin fara að hlakka til. En það eru ekki bara börnin sem hlakka til jólanna eins og alkunna er. Tónlistarunnendur á öllum aldri eru til að mynda alveg í essinu sínu nú um stundir, enda tónlistarlífið í miklum blóma á þessum árstíma. Mörgum finnst jólin fyrst vera á næsta leiti þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands efnir til sinna árlegu jólatónleika. Að þessu sinni heldur hljómsveitin ferna hátíðlega fjölskyldutónleika kl. 14 og 16 í dag, laugardag, og á morgun, sunnudag, í Eldborg í Hörpu.

Á tónleikunum verður skyggnst inn í íslensku baðstofuna þar sem gömlu jólasveinarnir og jólakötturinn hafa hreiðrað um sig. Einnig verður gullfalleg jólatónlist Jórunnar Viðar tónskálds í forgrunni. Hún lést í fyrra, en hefði orðið eitt hundrað ára 7. desember sl.

Töfrar tónlistarinnar

Hjá mörgum tónleikagestum eru jólatónleikar Sinfóníunnar hluti af hefðbundnum jólaundirbúningi. Tónleikarnir eru ekki síst ætlaðir ungviðinu, enda hluti af Litla tónsprotanum, framtaki Sinfóníuhljómsveitarinnar til að kynna töfra tónlistarinnar fyrir yngstu kynslóðinni.

Á efnisskránni eru lögin Jólakötturinn eftir Ingibjörgu Þorbergs , Það á að gefa börnum brauð og Jól eftir Jórunni Viðar, Jólin koma eftir Guðna Franzson, Ó ð ur til jólanna eftir Gunnar Þórðarson og fleiri sígildir jólasöngvar.

Hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinson og flytjendur Valgerður Guðnadóttir og Kolbrún Völkudóttir ásamt Stúlknakór Reykjavíkur og Litlu sprotunum.

Góðir gestir

Nemendur úr Listdansskóla Íslands túlka Jólakött Ingibjargar Þorbergs og Jólaóð Gunnars Þórðarsonar. Þá koma ungir lúðraþeytarar fram með Sinfóníuhljómsveitinni og Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hringir inn jólin með tónlistaratriði fyrir framan Eldborg kl. 13.30 og að tónleikum loknum. Auk áðurnefndra flytjenda koma fram þær Lilja Hákonardóttir flautuleikari og Nanna Guðmundsdóttir hörpuleikari.

Halla trúður hefur tekið að sér að kynna dagskrána, en þar er raunar á ferðinni leikkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir, sem undanfarið hefur heillað landsmenn sem Elly í samnefndum söngleik í Borgarleikhúsinu. Þess má og geta að tónleikarnir eru túlkaðir á táknmáli. Tónleikagestum er bent á að mæta tímanlega á tónleikana þar sem mikið er um að vera í Hörpu um helgina.