Við Hlemm CenterHotel Miðgarður er eitt af CenterHotelunum.
Við Hlemm CenterHotel Miðgarður er eitt af CenterHotelunum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Kristófer Oliversson, formaður FHG – fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, áætlar að erlendum ferðamönnum geti fækkað allt að 10% vegna niðurskurðar WOW air.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Kristófer Oliversson, formaður FHG – fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, áætlar að erlendum ferðamönnum geti fækkað allt að 10% vegna niðurskurðar WOW air. „En miðað við þau áform sem kynnt hafa verið sýnist mér að áhrifin verði mest á svokallaða tengifarþega og þá mest frá Bandaríkjunum. Það mun draga úr áhrifunum. En við þurfum einnig að gera ráð fyrir því að WOW air takist ekki að sækja fjármögnun. Þá gæti ferðamönnum fækkað um 20% á næsta ári.“

Yrði tímabundið högg

„Þetta er auðvitað mjög alvarlegt. En þetta verður þá tímabundið högg, einkum yfir vetrartímann meðan markaðurinn jafnar sig. Það er vel sloppið ef Wow air klárar sín mál í janúar,“ segir Kristófer. „Fram yfir áramót verðum við hins vegar því miður að gera ráð fyrir þeim möguleika að ekki takist að loka dæminu,“ segir Kristófer sem er eigandi CenterHotel-keðjunnar. Hann segist aðspurður ekki munu hægja á uppbyggingu tveggja nýrra hótela vegna þessara tíðinda. Þau verða á Laugavegi 95-99 og á Seljavegi í Vesturbænum.

Kristófer telur aðspurður að önnur hótel muni heldur ekki hægja á núverandi uppbyggingu sinni.

„En það verður væntanlega mun erfiðara að fjármagna ný verkefni ef allt fer á versta veg,“ segir hann.