Gísli Páll Pálsson
Gísli Páll Pálsson
Eftir Gísla Pál Pálsson: "Ráðherranum þakka ég fyrir að hafa tekið þessa góðu ákvörðun og er sannfærður um að hún eigi eftir að reynast öllum hlutaðeigandi heillarík."

Nýverið samþykkti heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, tillögu okkar í Mörkinni að fjölga geðhjúkrunarrýmum heimilisins um tíu talsins. Þau eru nú þegar tíu og verða 20 þegar breytingin hefur gengið í gegn, væntanlega upp úr næstu áramótum. Á sama tíma leggjast hvíldarinnlagnir af í Mörk en á móti kemur að Grund mun koma til móts við aukna þörf fyrir hvíldarinnlagnir með því að bjóða upp á fleiri slík pláss vestur á Hringbrautinni.

Mörk hefur verið eina hjúkrunarheimilið á landinu sem hefur boðið upp á sérhæfða dvöl fyrir þá sem glíma við erfiða geðsjúkdóma. Fellsendi við Búðardal hefur að vísu sérhæft sig í geðhjúkrun og gert það vel í áratugi.

Þörfin fyrir fleiri geðhjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist undanfarin ár. Þeir sem dvalið hafa á sambýlum á vegum sveitarfélaga eldast, eðli máls samkvæmt og þurfa þar með á aukinni hjúkrun og umönnun að halda en ella. Þessir einstaklingar eru meðal þeirra sem koma væntanlega til með að flytja til okkar á nýja geðhjúkrunarheimilið í Mörkinni.

Við í Mörkinni höfum talsverða reynslu af þjónustu við þá sem kljást við erfiða geðsjúkdóma á efri árum og teljum okkur því vel í stakk búin til að bæta við okkur þessari nýju tíu manna einingu. Hún verður á sömu hæð og núverandi geðhjúkrunarrými, á efstu hæð hjúkrunarheimilisins. Samhliða þessu verða gerðar endurbætur á svölum beggja heimila á fimmtu hæðinni á þann veg að heimilismenn og starfsmenn njóti þeirra enn betur en nú er, auk þess sem öryggi verður bætt.

Þetta er spennandi og að mínu mati jákvæð og góð breyting á starfsemi okkar í Mörkinni og við hlökkum til að takast á við þetta verkefni. Ráðherranum þakka ég fyrir að hafa tekið þessa góðu ákvörðun og er sannfærður um að hún eigi eftir að reynast öllum hlutaðeigandi heillarík.

Höfundur er forstjóri í Mörk, hjúkrunarheimili. gisli@grund.is