Varnarlína Fjármálaráðherra vill hefja undirbúning frumvarps sem takmarkar fjárfestingarstarfsemi banka.
Varnarlína Fjármálaráðherra vill hefja undirbúning frumvarps sem takmarkar fjárfestingarstarfsemi banka. — Samsett mynd
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir tillögu um varnarlínu vegna fjárfestingarstarfsemi banka sem er að finna í hvítbók um fjármálakerfið, dæmi um tillögu sem hægt er að setja í undirbúning nú þegar.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir tillögu um varnarlínu vegna fjárfestingarstarfsemi banka sem er að finna í hvítbók um fjármálakerfið, dæmi um tillögu sem hægt er að setja í undirbúning nú þegar.

Efnislega snýr tillagan að því að ef „eiginfjárþörf vegna beinnar og óbeinnar stöðutöku kerfislega mikilvægra banka nái 10-15% hjá einhverjum bankanna hafi viðkomandi banki tvo valkosti, annaðhvort að draga úr umræddri starfsemi eða stofna um hana sérstakt félag,“ að því er segir í hvítbókinni.

Ráðherrann segist meta það svo að tillagan sé dæmi um mál þar sem fátt er til fyrirstöðu að fara að hefja undirbúning og að frumvarp gæti komið fram í haust. Hann vísar til þess að niðurstöður höfunda hvítbókarinnar eru á sömu leið og nefnd um skipulag bankakerfisins komst að varðandi fjárfestingarstarfsemi banka. Þá segir hann þetta skýrt dæmi um mál sem þarf að setja strax í farveg.

Tillagan sem gengur undir nafninu „varnarlína,“ er sögð í hvítbókinni öryggisventill sem gæti virkað þegar önnur varnarúrræði duga ekki til þess að draga úr áhættusækinn vöxt. Þá er nefndar auknar eiginfjárkröfur vegna áhættusækinnar starfsemi og breytingar á reglugerðum er varða fjármálamarkaði.

Stöðutökur

Inntur álits á tillögum höfunda hvítbókarinnar þess efnis að fjárfestingarsjóðum verði veitt aukið frelsi til þess að taka skortstöður og að viðskiptavakt bankanna verði efld með auknum heimildum fyrir stöðutökur, segist Bjarni taka undir með skýrsluhöfundum mikilvægi þess að verðbréfamarkaður eflist. Hann útilokar ekki að frumvarp um breytingar á umgjörð verðbréfamarkaðarins verði sett í ferli eða jafnvel kynnt í vor, en vill ekkert fullyrða um það.

Hvítbókin er ekki aðgerðaráætlun að sögn Bjarna, heldur umræðu- og stefnuskjal. „Það er kannski fullmikið að segja að við ætlum að stökkva strax í að hrinda tillögunum öllum í framkvæmd. Ég er samt byrjaður að vinna með skjalið og við ætlum að efna til umræðu í þinginu á vettvangi efnahagsnefndar og setja þetta til umsagnar í samráðsgáttina.“

„Ég fagna þessari ábendingu og vona að það sé hægt að koma hreyfingu á málið,“ segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, um tillögurnar í hvítbókinni um stöðutökur. „Allt þetta umhverfi varðandi skortstöður hefur verið með allt öðrum hætti en tíðkast í nágrannalöndunum og þessum mörkuðum sem við berum okkur saman við, þannig að ég held að þessi tillaga sé mjög góðra gjalda verð,“ segir Páll.

Fjárfestavernd

Hann bendir á að líta beri á málið í samhengi við gæðaúttekt sem Kauphöllin fór í hjá FTSE-vísitölufyrirtækinu þar sem Kauphöllin stóðst að fullu á fimm mælikvörðum, fimm að hluta og einn ekki. „Fimm af þessum mælikvörðum sem taldir voru ekki standast nógu vel miðað við markaði í hæsta gæðaflokki snéru einmitt að aðstöðu til verðbréfalánaskorts og skortsölu. Þannig að þetta er ekki bara eitthvað sem Kauphöllin hefur verið að tala fyrir heldur samdóma álit óháðra aðila sem eru að mæla markaðsgæðin að þetta sé atriði sem þurfi að kippa í liðinn,“ segir Páll.

Þá segir hann að í umhverfi þar sem möguleiki til skortstöðutöku sé skertur, dregur úr möguleika þeirra sem eru svartsýnir á verðþróun að tjá skoðun sína á markaði. „Þess vegna skapar þetta hættu á því, meiri hættu en ella, að það myndist verðbóla. Þess vegna hefur til dæmis fjármálaeftirlitið í Bretlandi litið á þetta sem mikilvæga fjárfestavernd.“