Sigursæl Anna Rakel Pétursdóttir hefur unnið marga titla með meistaraflokki og 2. flokki Þórs/KA undanfarin ár og unnið sér sæti í A-landsliði Íslands.
Sigursæl Anna Rakel Pétursdóttir hefur unnið marga titla með meistaraflokki og 2. flokki Þórs/KA undanfarin ár og unnið sér sæti í A-landsliði Íslands. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Svíþjóð Víðir Sigurðsson Sindri Sverrisson Eftir að Anna Rakel Pétursdóttir bættist í hóp íslenskra knattspyrnukvenna í sænsku úrvalsdeildinni fyrir tímabilið 2019 gæti farið svo að metfjöldi íslenskra leikmanna yrði í deildinni á næsta keppnistímabili.

Svíþjóð

Víðir Sigurðsson

Sindri Sverrisson

Eftir að Anna Rakel Pétursdóttir bættist í hóp íslenskra knattspyrnukvenna í sænsku úrvalsdeildinni fyrir tímabilið 2019 gæti farið svo að metfjöldi íslenskra leikmanna yrði í deildinni á næsta keppnistímabili.

Anna Rakel, sem er tvítugur vinstri bakvörður eða miðjumaður frá Akureyri, hefur verið í lykilhlutverki í liði Þórs/KA undanfarin ár og hún er nú búin að semja við Linköping, meistarana frá 2016 og 2017, til næstu tveggja ára.

Þar með liggur fyrir að íslenskir leikmenn í deildinni árið 2019 verða í það minnsta átta talsins, tveimur fleiri en undanfarin þrjú tímabil þar sem á hverju ári fyrir sig hafa leikið sex íslenskir leikmenn í deildinni. Þeir voru hinsvegar tíu árið 2012 og níu árin 2009, 2010 og 2015.

• Guðbjörg Gunnarsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir og Guðrún Arnardóttir leika með Djurgården í Stokkhólmi.

• Sif Atladóttir, Svava Rós Guðmundsdóttir og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir leika með Kristianstad.

• Glódís Perla Viggósdóttir leikur með Rosengård í Malmö.

• Anna Rakel Pétursdóttir leikur með Linköping.

Þá er líklegt að Andrea Thorisson leiki með nýliðum Kungsbacka. Hún spilaði með þeim í B-deildinni í fyrra, kom þangað frá Rosengård, en er ekki búin að semja fyrir næsta tímabil.

Anna Björk Kristjánsdóttir og Rakel Hönnudóttir yfirgefa hinsvegar Limhamn Bunkeflo frá Malmö og ekki liggur fyrir ennþá hvort þær leika með öðru sænsku liði eða fara eitthvað annað.

Ef þessar þrjár verða allar í deildinni verða íslensku leikmennirnir orðnir ellefu talsins, og þá er ekki útilokað að aðrar bætist í hópinn á næstu vikum. Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad sem fyrr og hún er að hefja hvorki meira né minna en sitt ellefta tímabil við stjórnvölinn hjá liðinu, sem náði sínum besta árangri á þessu ári, fjórða sæti. Aðstoðarþjálfari hennar þar er Björn Sigurbjörnsson.

Linköping frekar en Leverkusen

Anna Rakel kveðst hafa valið Linköping meðal annars með hlutverk sitt í íslenska landsliðinu í huga. Hún lék fyrstu fjóra A-landsleiki sína á þessu ári.

„Ég var aðeins að líta til Þýskalands líka. Við Sandra María [Jessen] fórum til Leverkusen fyrir mánuði og æfðum með liðinu í viku, og þar var mér einnig sýndur áhugi. Ég taldi hins vegar að það myndi henta mér betur að fara til Linköping. Ég taldi að ég fengi að spila meira þar og þá í minni stöðu sem vinstri bakvörður. Ég held að Leverkusen hafi meira hugsað mig sem miðjumann. Upp á landsliðið að gera þá er vinstri bakvarðarstaðan hentugri fyrir mig. Hjá Linköping get ég verið vinstri bakvörður í fjögurra manna vörn,“ sagði Anna Rakel Pétursdóttir við Morgunblaðið í gær.