Amtmaðurinn Árni Thorsteinsson
Amtmaðurinn Árni Thorsteinsson — Teikning/Sigurður Guðmundsson
Fulltrúar Minja og sögu sem er vinafélag Þjóðminjasafns Íslands munu í dag afhenda safninu að gjöf blýantsmynd af Árni Thorsteinssyni (1828-1907) landfógeta.

Fulltrúar Minja og sögu sem er vinafélag Þjóðminjasafns Íslands munu í dag afhenda safninu að gjöf blýantsmynd af Árni Thorsteinssyni (1828-1907) landfógeta. Myndin sem er frá árinu 1858 er eftir Sigurð Guðmundsson (1833-1974) málara, sem fyrstur manna á Íslandi sinnti skipulagðri söfnun gamalla muna. Það starf varð rótin að Þjóðminjasafni Íslands. Myndin af fógetanum og þá einkum höfundarverkið hafa því sterka tilvísun í sögu safnsins.

Félagið Minjar og saga var stofnað 1988 og á þeim tíma hefur það fært Þjóðminjasafninu ýmsar gjafir, en slíkt er eitt af meginmarkmiðum starf þess.. Myndin af Árna Thorsteinssyni nú er gefin safninu í tilefni af 30 ára afmæli félagsins og svo aldarafmæli fullveldisins.

Að sögn Stefáns Einars Stefánssonar, formanns Minja og sögu, fregnuðu forsvarsmenn félagsins fyrir nokkrum misserum að myndin af Árna væri föl og að stjórnendur Þjóðminjasafnsins teldu hana hafa gildi fyrir safnið. Félagið keypti því myndina og varði til m.a. ágóða af menningar- og fræðsluferðum til Ísraels og á slóðir Winstons Churchill í Lundúnum.

Aðalfundur Minja og sögu verður haldinn í húsi Þjóðminjasafnsins í dag, laugardag, og hefst kl. 15. Allir eru velkomnir. Afhending myndarinnar, sem Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður veitir viðtöku er meðal aðalfundarstarfa. sbs@mbl.is