[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta er búið að vera gríðarlega þungt og flókið verkefni.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er búið að vera gríðarlega þungt og flókið verkefni. Leiðarljósin hjá mér hafa alltaf verið auðmýkt, sanngirni og skilningur sem maður þarf til að mæta þessu fólki,“ segir Guðrún Ögmundsdóttir, tengiliður vistheimila.

Í gær var birt lokaskýrsla um framkvæmd á greiðslu sanngirnisbóta fyrir misgjörðir á stofnunum og heimilum fyrir börn. Fram kemur í skýrslunni að alls hafa verið greiddar sanngirnisbætur til 1.162 einstaklinga. Nema bótagreiðslurnar um þremur milljörðum króna. Ekki liggur fyrir hve margir dvöldu á þessum stofnunum en skýrsluhöfundar segja að ætla megi að það hafi verið um fimm þúsund einstaklingar.

Sanngirnisbætur eru byggðar á rannsókn vistheimilanefndar á árunum 2007-2017 á starfsemi vistheimila og stofnana þar sem börn voru vistuð á síðustu öld. Um er að ræða ellefu heimili og stofnanir og fjölmargar undirstofnanir. Nefndin hefur skilað fimm skýrslum um niðurstöðurnar.

Í skýrslunni er rakið að ljóst sé að margir hafi orðið fyrir verulegu tjóni eftir dvöl á umræddum heimilum vegna þess að þeir máttu sæta harðræði og ofbeldi. Tjónið megi að hluta til rekja til vanrækslu og lítils eftirlits opinberra aðila en einnig vegna aðstæðna sem voru uppi á þessum tíma.

„Allt mjög þungbært“

Guðrún segir í samtali við Morgunblaðið að sig hafi ekki órað fyrir umfangi verkefnisins þegar hún tók að sér starf tengiliðar árið 2010. „Nei, því verkefnið stækkaði bara og stækkaði. Það bættust alltaf við fleiri og fleiri heimili. Því varð að finna upp aðgerðir til að gera þetta sem best og í raun er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi tekist vel. Auðvitað eru alltaf einhverjir sem lenda á milli skips og bryggju og það er erfitt að standa frammi fyrir því.“

Í skýrslunni kemur fram að hjá tengilið eru skráð um 3.500 símtöl og 1.500 tölvupóstar vegna samskipta við umsækjendur. Eins komu flestir þeirra í viðtal til Guðrúnar. „Ég talaði við 95% af umsækjendunum. Það segir sjálft að það var oft erfitt. Þetta var allt mjög þungbært. Í aðstæðum sem þessum er gott að vera vanur og að geta faðmað fólk. Þarna varð fólk að geta treyst manni, geta treyst manni fyrir þessu lífi sínu. Því þurfti að sýna skynsemi og vinna með hjartanu. Ég var einu sinni spurð að því hvernig mér liði með að vera svampur fyrir vanlíðan alls þessa fólks. Nú er ég búin að vera þessi svampur í átta ár.“

Gagnrýni sem hefur verið sett fram á sanngirnisbæturnar er viðruð í skýrslunni, bæði á upphæð þeirra sem og framkvæmd greiðslna. „Samstarf við hagsmunasamtök bótakrefjenda sem hétu fyrst Breiðavíkursamtökin en urðu síðar Samtök vistheimilabarna var aldrei einfalt. Uppi voru kröfur um greiðslu á miklu hærri bótum en til reiðu voru,“ segir til að mynda í skýrslunni.

Guðrún kveðst þegar upp er staðið telja að vel hafi tekist til. „Já, ég tel þetta sanngjarnt. Þetta var sá rammi sem við unnum eftir og við reyndum að vinna það vel. Hvað upphæðina varðar má benda á að bæði eru þessar bætur hærri en almennar skaðabætur og þær eru líka skattfrjálsar. Þær hafa heldur ekki áhrif á aðrar bætur.“

Mikill velvilji stjórnvalda

Gagnrýnt hefur verið að enn sé óbætt ill meðferð á börnum sem dvöldu á sveitaheimilum á síðustu öld. „Við fengum auðvitað nöfn á alls konar stofnunum í þessari vinnu. Ég held að það sé oft erfitt að skoða slík mál en framtíðin verður að skera úr um hvað verður. Það er stjórnvalda að skera úr um það. Þau hafa þá alla vega þessa reynslu í farteskinu.“

Guðrún kveðst horfa stolt til baka. „Þetta er stærsta uppgjör þjóðarinnar í ofbeldismálum gegn börnum. Að hafa kjark í að fara í þetta er magnað. Og það er rétt að geta þess að við höfum mætt gríðarlegum velvilja hjá hverri einustu ríkisstjórn á þessu tímabili.“