Endurbætur Skipt hefur verið um glugga í Hvalsneskirkju sem orðin er 132 ára gömul. Þá var gólf olíuborið.
Endurbætur Skipt hefur verið um glugga í Hvalsneskirkju sem orðin er 132 ára gömul. Þá var gólf olíuborið. — Morgunblaðið/Reynir Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Reynir Sveinsson Sandgerði Nú er endanlega búið að finna nafn á hinu nýja sveitarfélagi sem varð til við sameiningu Sandgerðis og Garðs.

Úr bæjarlífinu

Reynir Sveinsson

Sandgerði

Nú er endanlega búið að finna nafn á hinu nýja sveitarfélagi sem varð til við sameiningu Sandgerðis og Garðs. Sameiningarferlið hefur tekið langan tíma og haldnir voru margir kynningarfundir í báðum sveitarfélögunum þar sem sérfræðingar kynntu kosti sameiningar. Ekki voru miklar umræður á kynningarfundunum og virðast flestir vera sáttir við sameininguna. Þá var bara að finna nafn á nýja bæjarfélagið.

Í fyrstu fór fram rafræn könnun um nafn og var þátttaka mjög léleg. Eftir að sameiningarnefnd hafði skoðað málið var boðað til skriflegra kosninga um þrjú nöfn og hlaut nafnið Suðurnesjabær áberandi mest fylgi. Þó að nafnið sé komið er heilmikil vinna eftir við að skrifa nýja bæjarmálasamþykt og fá hana samþykkta. Það verður ekki fyrr en á næsta ári sem formlega verður notast við nafnið.

Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið við að reka niður nýtt stálþil við suðurgarð Sandgerðishafnar. Nýja þilið er ca. 70 cm utan við eldra þil sem er að verða 40 ára gamalt. Það var komin mikil tæring í eldra þilið og göt, sem varð þess valdandi að efni skolaðist út og þekja bryggjunnar seig. Steypt verður ný þekja og skipt um allar lagnir og rafmagnsbúnað. Þessar framkvæmdir kosta um 115 milljónir. Í upphafi áttu þessar framkvæmdir að vera búnar 1. október 2018, en miklar tafir hafa orðið á verklokum sem verða snemma næsta árs.

Í sumar hafa staðið yfir miklar framkvæmdir við Hvalsneskirkju sem er orðin 132 ára gömul. Skipt var um alla glugga sem sumir hverjir voru farnir að leka. Að þessu sinni var sett slétt gler í stað hamraðs glers sem var fyrir og sást ekki út um. Gólf kirkjunnar var víða sigið en burðarbitar í gólfi eru mjög öflugir, úr bandaríska timburflutningaskipinu Jemec Town sem rak mannlaust upp í fjöru sunnan við Stafnes árið 1881. Skipið var þriggja mastra seglskip um 100 metra langt með fullfermi af úrvalstimbri sem að hluta var rauðviður. Gólfbitarnir í kirkjunni eru úr rauðvið, þeir voru hvergi festir við grunn kirkjunnar heldur hvíldu þeir á grjóti sem hafði verið hlaðið undir gólfbitana. Gólfklæðning var úr skipinu og var það mikil vinna að skafa það upp og olíubera, við þessar framkvæmdir þurfti að fjarlægja alla bekki, ofna og altari úr kirkjunni og var geymt í gám þar til framkvæmdum lauk.

Á þessu ári eru 90 ár frá því að slysavarnasveitin Sigurvon var stofnuð og er hún elsta sveit innan SVFÍ. Sigurvon var stofnuð í kjölfar sjóslyss við Stafnes 1928 er togarinn Jón forseti RE strandaði þar og 15 menn fórust en 10 tókst að bjarga. Árið 1929 kom björgunarbáturinn Þorsteinn til Sandgerðis. Hann er nú geymdur í Björgunarskýlinu sem var byggt yfir hann er hann kom til Sandgerðis. Starfsemi Sigurvonar hefur lengstum verið öflug, núverandi björgunarstöð sem er nýleg bygging er á hafnarsvæðinu.

Það hefur lifnað yfir húsbyggingum á árinu sem er að líða. Nú eru um 30 íbúðir í byggingu á misjöfnu byggingarstigi. Aðeins 8 lóðir eru á lausu um þessar mundir. Unnið er að hönnun og skipulagi á nýju hverfi sunnan við Sandgerðisveg ofan við íþróttasvæðið. Þar er gert ráð fyrir 398 íbúðum. Hverfið verður byggt í áföngum og stefnt er að því að lóðum verði úthlutað á næsta ári.