Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Þetta er háttur þinn og minn. Þar að auki báturinn. Flutning sumir fá með því. Fastir sama margir í. Harpa á Hjarðarfelli á þessa lausn: Um margt gerir fólk sér far. Far sitt kapteinn lakkar.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Þetta er háttur þinn og minn.

Þar að auki báturinn.

Flutning sumir fá með því.

Fastir sama margir í.

Harpa á Hjarðarfelli á þessa lausn:

Um margt gerir fólk sér far.

Far sitt kapteinn lakkar.

Far sér sumir fengu þar.

Í fari sama hjakkar.

Guðrún Bjarnadóttir leysir gátuna þannig:

Fullt er slæmt í fari mínu.

Fari stæli, ef kynni að sigla,

en kannski fæ ég far með Stínu.

Í fari gömlu hangi og mygla.

Helgi R. Einarsson svarar:

Háttur, ferðamáti og fley,

fastir sumir eru þar.

Nú glórutetrið gagnast ei,

þó gæti þetta verið far.

Helgi Seljan á þessa lausn:

Finnast má í fari okkar hér,

farið ágætt bátsnafn víst um það.

Ýmis flutningurinn með því fer,

þá festast menn og komast ei úr stað.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Þetta dagfar okkar er.

Einatt bát við nefnum far.

Far með skipi fékkstu þér.

Í fari sama hjakkað var.

Þá er limra:

Hann Simbi ók sinni möstu

sérdeilis ljótu og höstu,

á lausu hann var

og Lindu bauð far,

en Linda kvaðst vera á föstu.

Og síðan ný gáta eftir Guðmund:

Sólin glæðir ást og yl,

eyðist beiskja og tregi,

og vísnagátur verða til,

vinur elskulegi:

Þór og Elli þreyttu forðum.

Þau má finna á veisluborðum.

Leynist hérna lítil sáta.

Líka faðmur hlýr úr máta.

Einar Andrésson í Bólu orti:

Æsku brjálast fegurð fer,

fjörs er stálið sprungið,

hýðið sálar hrörnað er

heims af nálum stungið.

Eilífðar eg er á vog

eins og fisi svari

eða þegar lítið log

lifir á kuldaskari.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is