Skattaflóran er nú þegar gróskumeiri en æskilegt er

Veggjöld eru komin á dagskrá og er umræðan á þann veg að ekki kæmi á óvart að innleiðing þeirra muni eiga greiða leið í gegnum þingið. Þó eru veggjöld síður en svo sjálfsagður kostur, þótt þau hafi verið lögð á til að fjármagna Hvalfjarðargöng og eigi nú að skila einhverju upp í framúrkeyrsluna við Vaðlaheiðargöng.

Veggjöld eru víða notuð á hraðbrautum og samgöngumannvirkjum á borð við göng og brýr. Oftast nær er það þó svo að ökumenn eiga aðra kosti. Ef þeir vilja ekki borga veggjöldin geta þeir farið aðra leið. Það tekur ef til vill lengri tíma, en sá kostur er þó fyrir hendi. Jafnvel er litið á það sem lykilforsendu þess að leggja á veggjöld að aðrir kostir séu fyrir hendi.

Það átti við um Hvalfjarðargöng og verður raunin með Vaðlaheiðargöng. Nú heyrist hins vegar talað um að setja veggjald á umferð um allar stofnbrautir sem liggja frá höfuðborgarsvæðinu.

Ein rökin fyrir veggjöldunum eru að öðruvísi sé ekki hægt að fjármagna lagningu eða stækkun nauðsynlegra vega. Í þeim efnum má benda á að mun meiri skattur er heimtur af ökumönnum en fer í samgöngur. Kannski væri ráð að byrja á að laga það misræmi áður en ráðist er í að bæta í skattaflóruna, sem þegar er öllu gróskumeiri en æskilegt er.