Geirlaug Guðmundsdóttir fæddist 19. október 1945. Hún lést 22. nóvember 2018.

Útför Geirlaugar fór fram 6. desember 2018.

Rigningarsumarið 1955 er okkur systrum minnisstætt er við fluttumst frá Reykjavík til Hafnafjarðar. Fyrir neðan Sankti Jóseps spítala á Suðurgötu eyddum við öllu sumrinu í stígvélum og pollagöllum við hörku stíflugerð. Geirlaug var bæði með góða og ljúfa lund, alltaf til í að hjálpa okkur yngri systrunum í einu og öllu. Það var oft mikið fjör á heimilinu þegar Geirlaug og Auður voru komnar á gelgjuna. Borð og stólar voru þá færðir til í stofunni og við tvíburarnir fengum þá oftast að vera með ásamt vinkonum þeirra á rokk- og tjútttímabilinu þar sem tónlistin var sett í botn en það þótti okkur ekki leiðinlegt. Tuttugu ára fór Geirlaug sem „au pair“ til London en Auður, þá átján ára, og vinkonur hennar fóru á síldarvertíð á Raufarhöfn. Þessu ævintýri þeirra fylgdumst við tvíburarnir spenntar með. Geirlaug keypti þessar flottu nýtísku fermingarkápur úr krulluefni og við upplifðum okkur sko flottastar á þeim tíma í tískufötum frá útlöndum.

Elsku Geirlaug okkar, þú fórst í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og lærðir þar ýmislegt hagnýtt og meðal annars saumaðir þú gullfallegan skírnarkjól sem við systurnar höfum fengið að nota síðan fyrir börn okkar og barnabörn.

Um þig stafaði ýmsa vegu

Eitthvað gjafamilt

Því mun hafa þungum trega

Þér til grafar fylgt

(Jakob Thorarensen)

Elsku Helgi, Hildur og fjölskyldur, megi góður Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Elsku Geirlaug, blessuð sé minning þín og munum við ávallt geyma þig í hjörtum okkar.

Lína og Svava

Guðmundsdætur.