Björn Helgason fæddist í Reykjavík 13. maí 1935. Hann lést 4. desember 2018.

Foreldrar hans voru Boghildur Lára Thorarensen, f. 29.9. 1913, d. 28.9. 1984, og Helgi Friðrik Helgason, f. 23.7. 1912, d. 2.6. 1945. Bræður samfeðra: Sigurður Már, f. 1940, og Oddur Friðrik, f. 1941.

Börn Björns eru: 1) Sigurlaug Oddný, f. 22.5. 1954, móðir hennar Hrafnhildur Loreley Oddsdóttir, f. 1936, d. 2018. Sigurlaug er gift Guðmundi Karli Þorleifssyni, f. 1952. Börn þeirra eru Hlynur Róbert, f. 1973, Eva Kristín, f. 1977, og Jón Oddur, f. 1981. Björn var giftur Elínu Guðlaugu Kröyer, f. 1937, þau skildu. Dætur þeirra eru: 2) Hildur, f. 4.12. 1956, d. 5.7. 2005, maki Róbert Guðlaugsson, f. 1955. Börn þeirra eru Björn Róbert, f. 1979, Elín Thelma, f. 1982, og Tómas Darri, f. 1989. 3) Díana, f. 28.12. 1957. Börn hennar eru Oscar Angel, f. 1984, og Elías Kristinn, f. 1990. 4) Lára, f. 4.7. 1962, maki Ólafur Þorkell Pálsson, f. 1954. Börn þeirra Smári, f. 1987, og Katla Boghildur, f. 1995. Björn giftist 6.5. 1975 Guðrúnu Kristjönu Ólafsdóttur, f. 4.6. 1941, d. 17.10. 2017. Sonur þeirra er: 5) Gunnar Friðrik, f. 22.5. 1972. Langafabörn eru 12.

Björn, eða Bubbi eins og hann var alltaf kallaður, ólst að mestu leyti upp hjá ömmu sinni, Hildi Thorarensen, sem var í raun afasystir hans. Hildur tók Láru móður hans í fóstur sem ungbarn. Lára dvaldi langdvölum á Vífilsstöðum í æsku hans, hún fékk berkla.

Bubbi starfaði mestan sinn starfsaldur hjá Sendibílastöðinni og keyrði fast hjá eftirtöldum fyrirtækjum: Sanitas, Reykjalundi, Hjálpartækjabanka Rauða krossins og í lokin hjá Stoðtækjafyrirtækinu Össuri. Árið 1968 silgdi hann á vit ævintýranna með Sæbjörginni til Kanaríeyja og dvaldi þar í rúmt ár við hákarlaveiðar. Sælureit áttu þau Bubbi og Guðrún í Svignaskarði í Borgarfirði til margra ára og dvöldu þau mestallan sinn frítíma þar í hjólhýsinu sínu.

Fyrir einu og hálfu ári fór heilsunni að hraka og dvaldi Bubbi á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hann lést aðfaranótt 4. desember sl.

Útför Björns fór fram í kyrrþey að ósk hins látna hinn 14. desember 2018.

Elsku pabbi, þá er komið að kveðjustund hér á jörðu og þú kominn í sumarlandið. Það er mér dýrmætt að hafa dvalið hjá þér síðustu vikuna á Hrafnistu við góða og einstaklega hlýja umönnun starfsfólks.

Minningar mínar frá yngri árum koma nú fram og þá standa nú upp úr dagsferðir á Meðalfellsvatn þar sem við vorum að veiða. Eitt sinn kallaði ég „pabbi, það er allt fast“, en þá hafði hann útbúið línu með þremur krókum á færinu og stelpuskottið fékk þrjá fiska í einu og átti erfitt með að landa þeim. Eins má minnast ferða á Reykjalund með þér, mikið þótti mér gaman að koma með þér þegar þú varst í vinnunni og alltaf fékk ég staur í búðinni.

SÍBS var stór þáttur í lífi okkar, amma Lára var umboðsmaður Lego fyrir þá, þú varst bílstjóri og mamma vann hjá happdrættinu.

Þú talaðir oft um að þú hefðir eignast mig tvisvar sinnum, þegar ég var svona 4-5 ára gömul var ég veik heima og þú kíktir inn í hádeginu og þá var ég orðin blá, þú blést í mig lífi og þakkaðir skyndihjálparmanninum vel fyrir lærdóminn. Eftir að þið mamma skilduð sigldir þú á vit ævintýranna með Sigga Þorsteins og fjölskyldu til Kanarí með Sæbjörginni sem var gamalt varðskip. Þar dvaldir þú í rúmt ár við hákarlaveiðar og ævintýramennsku og komst svo siglandi heim með Gullfossi.

Með þessu ljóði kveð ég þig hinstu kveðju, elsku pabbi minn.

Guð geymi þig.

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum

lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

(23. Davíðssálmur.)

Þín

Lára.

Takk afi. Takk fyrir allar fallegu minningarnar sem ég á um þig. Þau voru ófá árin þar sem maður varði stundunum með þér og ömmu uppi í hjólhýsinu í Svignaskarði. Það sem maður fékk að leika lausum hala þar og skemmta sér. Alltaf varstu tilbúinn að leika við mann, slást og ærslast. Þegar maður suðaði og suðaði að fá að fara í Ferstiklu og kaupa kóka kóla og hubba bubba-tyggjó var ætíð sagt já. Alltaf gat maður hringt í Bubba afa eftir skóla þegar manni leiddist og fengið að sitja með í bílnum þegar þú varst að keyra fyrir hjálpartækjabankann. Mér fannst svo merkilegt að sjá að þú einhvern veginn þekktir alla hvert sem við fórum og allir þekktu þig. Hvernig þú fékkst alltaf alla til þess að brosa og hlæja og lést öllum líða vel í kringum þig. Hversu stoltur þú varst af því að kynna afastrákinn þinn fyrir öllum. Þú hafðir svo gott hjartalag og þú kallaðir alla „elskan“ hvert sem við fórum.

Alltaf var stoppað í bláa turninum til þess að fá bestu smurðu samlokurnar, að eigin sögn. Baunasamlokur, þær eru enn bestar í minningunni.

Takk fyrir að hafa alltaf verið til staðar fyrir mig þegar ég þurfti á þér að halda, afi minn. Þegar ég var týnd sál sem unglingur – og voru þau ófá skiptin þar sem mig langaði ekki til þess að lifa lengur – gat ég alltaf hringt í hann afa minn sem var alltaf tilbúinn að hjálpa mér og vera til staðar þegar enginn annar var.

Aldrei dæmdir þú mig né skammaðir þegar ég hafði komið mér í eitthvert klandrið heldur sýndir mér alltaf skilning og kærleika og lést mig finna að saman skyldum við vinna úr þessu. Ég veit ekki hvar ég væri ef ekki væri fyrir þig og er ég þér ævinlega þakklátur, afi minn, fyrir það.

Þú komst næst því sem ég get kallað föðurímynd mína í lífinu og er ég þakklátur fyrir það sem þú stóðst og stendur í minningunni fyrir og mun ég alltaf vera litli Óskinn þinn!

Ég elska þig alltaf afi, þinn

Oscar Angel Lopez (Óski).