Hart er lagst gegn tillögu Pírata um að lögleiða kannabis til lækninga

Píratar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um notkun og ræktun kannabis eða lyfjahamps, eins og það heitir í orðasafni þeirra, í læknisfræðilegum tilgangi. Þessi tillaga hefur fengið neikvæð viðbrögð allra þeirra sem sent hafa umsögn um málið til Alþingis, eins og rakið var í frétt um málið í Morgunblaðinu í gær.

Píratar ganga ansi langt í fullyrðingum sínum um notagildi lyfjahamps. Þeir segja í greinargerð með frumvarpinu að fjöldi rannsókna hafi verið gerður á læknisfræðilegum áhrifum lyfjahamps. Með þeim hafi verið sýnt fram á að hann hafi „raunverulegt notagildi, m.a. í meðferð gegn krabbameini, taugasjúkdómum og öðrum alvarlegum sjúkdómum“.

Slíkar fullyrðingar eru ákaflega hæpnar og kemur það rækilega fram í umsögnunum. Í umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga segir að þvert á móti sé skortur á vönduðum vísindarannsóknum þar sem gagnsemi kannabis er könnuð. Vandaðar rannsóknir hafi ekki sýnt fram á mikinn ávinning fyrir krabbameinssjúklinga.

Umsagnir Krabbameinsfélagsins, framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi og Heilsugæslunnar eru á sama veg og Lyfjafræðingafélagið segir tillöguna ótímabæra og gagnrýnir notkun orðsins lyfjahampur.

Áróður fyrir kannabis er öflugur og þrýstingur á að slaka á höftum á almenna notkun. Nýjasta dæmið er Kanada þar sem neysla hefur verið leyfð. Það hefur einnig verið gert í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna og Úrúgvæ. Talað er um að Mexíkó gæti verið næst.

Víða hefur einnig verið leyft að nota kannabis í læknisfræðilegum tilgangi. Það má til dæmis í Þýskalandi og er talið að innan tveggja ára verði komin af stað ræktun heima fyrir til að uppfylla eftirspurnina. Ekki er langt síðan dómur féll í Þýskalandi þess efnis að sjúkratryggingar þar í landi ættu að taka þátt í kostnaði sjúklinga við kannabis í læknisfræðilegum tilgangi.

Þetta hefur verið gagnrýnt. Segja gagnrýnendur að þarna hafi dómstólar látið undan þrýstingi og slegið af kröfum. Mun strangari kröfur séu almennt um rannsóknir og tilraunir á lyfjum áður en þau séu sett á markað, bæði á því hvort þau virki og aukaverkunum, en í þessu tilfelli.

Það er engin ástæða til að gefa afslátt á kannabis og gera minni kröfur en almennt eru gerðar til lyfja.

Um þessar mundir er mjög hávær umræða um skaðleysi kannabis og því haldið fram að það sé náttúrulegt efni með sama hætti og gulrætur og blómkál. Ekkert er fjær sanni.

Ein rökin með því að leyfa kannabis til almennrar notkunar eru að þá muni draga úr glæpum. Með lögleiðingu er hins vegar að verða til mjög öflugur þrýstihópur og er þegar farið að líkja honum við tóbaksfyrirtækin, sem á sínum tíma börðust á hæl og hnakka fyrir því að fá óáreitt að dásama tóbak.

Það er auðvelt að fara fram úr sér í umræðunni og augljóst að það hefur gerst hér. Notkun kannabis til lækninga á ekki að vera háð öðrum skilyrðum en lyfja almennt. Það er fullkomið ábyrgðarleysi að taka þátt í að setja fram fullyrðingar, sem ekki hafa verið sannaðar með rannsóknum, um ágæti kannabis til lækninga.