Jón Torfason
Jón Torfason
Eftir Jón Torfason: "Þegar grefur einhvers staðar í manni er besta lækningin að ýfa upp sárið og hleypa greftrinum út, getur stundum orðið sárt en er nauðsynlegt."

Nokkuð er farið að bera á því í opinberri umræðu, sem við mátti búast, að menn fara að ræða aðferðina sem Klausturmálið spratt upp af, þ.e. taka upp ummæli manna að þeim óvörum. Vissulega er „ljótt“ að hlera það sem aðrir segja, hvað þá taka upp á band, en stundum brýtur nauðsyn lög og það á við um þetta mál. Vildu menn heldur að ummælin hefðu legið í þagnargildi?

Hvert hefði þá framhaldið hugsanlega orðið? Hinir brottreknu þingmenn Flokks fólksins hefðu líklega á vel völdu augnabliki flutt sig yfir í Miðflokkinn sem þar með hefði orðið þriðji stærsti flokkurinn á alþingi og jafnframt stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn.

Hefðu Miðflokksmenn haldið áfram talsmáta sínum, slett fúkyrðum á samstarfsfólk sitt á þingi, kannski fólk sem þeir hafa unnið með í nefndum e.t.v. að málefnum sem breið samstaða væri um? Hefðu þeir haldið áfram að heilsa samstarfsfólki sínu í þingsölum og bjóða góðan dag að morgni en rakka sama fólk niður að kvöldi á Klausturbarnum, brugðið því um heimsku og daðrað við bjánalega neðanmittisbrandara? Mundi slíkt bæta starfsandann á alþingi?

Mundu Miðflokksmenn og þeirra nótar hafa haldið áfram niðrandi tali um öryrkja og samkynhneigða, bæði almennt og með háðsglósum um tiltekna einstaklinga? Væru viðlíka ummæli og t.d. voru viðhöfð um öryrkja þetta kvöld líkleg til að menn tækju málefni þeirra alvarlega og væru þau vitnisburður um að menn hefðu einlægan og góðan vilja til að bæta hlut þeirra? Ekki held ég það.

Ef ummælin hefðu ekki verið tekin upp og ekki komist á flug hefðu þá Miðflokksmenn einhvern tíma í vetur „hjólað í“ Lilju Alfreðsdóttur og beitt einhverjum þeim bolabrögðum sem talað var um þetta ömurlega kvöld? Væri það þjóðþrifaverk?

Það er jafnan dapurlegt þegar upp kemst um misferli eða „ósiðlegt“ athæfi af einhverju tagi, ekki síst fyrir aðstandendur þeirra sem hlut eiga að máli, og auðvitað þarf að taka á slíku af yfirvegun. Þegar grefur einhvers staðar í manni er besta lækningin að ýfa upp sárið og hleypa greftrinum út, getur stundum orðið sárt en er nauðsynlegt. Á sama hátt eru ærið mörg graftrarkýli á þjóðarlíkamanum, sem þörf væri á að krafsa í. Bára Halldórsdóttir stakk á einu slíku kýli kvöldið góða á Klausturbarnum, þökk sé henni.

Höfundur er skjalavörður. grenimelur31@simnet.is