Friðgeir Einarsson vaknar stundum upp í líkama ferðamannsins sem skilur ekki alveg hvað hann er að gera eða á að vera að gera.
Friðgeir Einarsson vaknar stundum upp í líkama ferðamannsins sem skilur ekki alveg hvað hann er að gera eða á að vera að gera. — Morgunblaðið/Eggert
Í nýju smásagnasafni veltir Friðgeir Einarsson fyrir sér ferðamennsku í eiginlegri og óeiginlegri merkingu Árni Matthíasson arnim@mbl.is
Ég hef séð svona áður heitir nýtt smásagnsafn eftir Friðgeir Einarsson, en áður hafa komið frá honum smásagnasafnið Takk fyrir að láta mig vita og skáldsagan Formaður húsfélagsins .

Friðgeir segir að sögurnar í Ég hef séð svona áður hafi allar verið skrifaðar á þessu ári, þótt vísarnir að þeim, hugmyndirnar, hafi orðið til á síðustu árum. „Þær eru allar skrifaðar á þessu almanaksári og svolítið tilfundnar í kringum ákveðið þema sem er túrismi í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, nokkuð sem ég hef haft áhuga á lengi,“ segir Friðgeir, sem hefur reyndar starfað við ferðamennsku síðastliðin tvö ár. „Ég hef mikinn áhuga á ferðalöngum en vakna líka stundum upp í líkama ferðamannsins sem skilur ekki alveg hvað hann er að gera eða á að vera að gera.“

Friðgeir segist ekki mikið innfallaskáld, stundum fái hann einhverja vitrun og skrifi þá niður, en það sé oft algjört smáatriði. „Síðan þarf ég að pína sjálfan mig til að setjast niður og skrifa og stundum líður mér eins og megnið af vinnudeginum fari í að píska mig áfram.“

Utanveltu í eðlilegum aðstæðum

– Þú segir túrismi í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, ertu þá að vísa í það þegar maður er utanveltu í eðlilegum aðstæðum?

„Það að upplifa framandleika í hversdagslegu lífi, að upplifa eitthvað sem allir eru að gera og skilja en maður skilur ekki af hverju maður gerir það eða vill það sjálfur. Einhver aftenging, sem er stemningin sem ég var að reyna að skrifa í kringum, en það var ekki endilega markmiðið að stíga alltaf nákvæmlega á þann punkt.“

– Í sögunni Virki er til að mynda maður sem er að gera eitthvað sem hann eiginlega langar ekki til að að gera eða veit eiginlega ekki hvers vegna hann ætti að vera að gera.

„Mér líður stundum þannig þegar ég er að ferðast. Ég tala nú ekki um ef ég ákveð að taka myndir af einhverri kirkju eða einhverju mannvirki sem ég hef í raun engan áhuga á. Jafnvel þegar ég geng yfir Skólavörðuholtið og sé að fólk er að taka myndir af Hallgrímskirkju og rennir í grun að ekki hafi allir sama áhugann á arkitektúr Guðjóns Samúelssonar. Hugsanlega enginn, en alla vegana ekki svona margir.“

Framleidd upplifun

– Til að stimpla það inn að ég hafi verið hér þarf ég að taka mynd af því þótt ég eigi aldrei eftir að skoða hana aftur.

„Akkúrat og kemur kannski líka aðeins inn á framleiðslu á svoleiðis augnablikum; að maður sé að framleiða minningu sem er kannski ekkert endilega í samræmi við raunveruleika ferðalagsins.“

– Í sögunni Þjálfun nýrra leiðsögumanna er verið að búa til minningar, búa til upplifun fyrir ferðamanninn sem er ekki ekta, skiptir ekki máli af því það er verið að selja þessa upplifun.

„En það þarf líka að passa að leiða upplifunina framhjá þeirri staðreynd eða lenda því á einhverjum þægilegum stað þannig að ferðamenn þurfi ekki að hugsa um að þeir séu ferðamenn þótt þeim sé ekið um á stórum bílum fullum af öðrum ferðamönnum.“