Google Ýmsu var flett upp í ár.
Google Ýmsu var flett upp í ár. — AFP
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is Nú þegar nýtt ár gengur senn í garð birtir leitarvefurinn Google yfirlit yfir algengustu leitarorð fjölmargra þjóða á árinu 2018.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

Nú þegar nýtt ár gengur senn í garð birtir leitarvefurinn Google yfirlit yfir algengustu leitarorð fjölmargra þjóða á árinu 2018. Ísland er þar engin undantekning en ýmislegt athyglisvert er að finna þegar litið er yfir þau orð sem algengust voru hér á landi. Auglýsingastofan Sahara tók saman lista yfir algengustu leitarorðin í nokkrum flokkum.

Meðal íslenskra landsliðsmanna var Rúrik Gíslasyni oftast flett upp en hann vakti mikla athygli eftir leik íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu við Argentínu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar. Alls var nafn hans slegið 28.800 sinnum inn á leitarvefinn yfir árið en næstur landsliðsmanna kom Gylfi Þór Sigurðsson með tæplega 25.000 uppflettingar hér á landi.

Elín Metta Jensen var hlutskörpust íslenskra knattspyrnukvenna í landsliðinu með 2.520 uppflettingar. Næstar komu Agla María Albertsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Sif Atladóttir með 1.080 uppflettingar hver. Af íþróttafólki úr öðrum greinum ber nafn Katrínar Tönju Davíðsdóttur, keppanda í Crossfit, hæst en alls var henni flett upp ríflega 4.500 sinnum yfir árið.

Þegar kemur að leitum á Google trónir Baltasar Kormákur leikstjóri á toppnum með 760 uppflettingar að meðaltali á mánuði. Einn aðalleikara Ófærðar, nýjustu þáttaraðar Baltasars, er annar á listanum með um 460 uppflettingar að meðaltali á mánuði. Í öðrum flokkum kom margt athyglisvert fram. Efst í flokki verslana var Hagkaup með 118.800 uppflettingar yfir árið. Veitingastaðurinn Grillmarkaðurinn var með flestar uppflettingar í flokki veitingastaða eða 43.200 talsins. Þá var 66°Norður vinsælasta íslenska vörumerkið á Google í ár með tæplega 120.000 uppflettingar.