Kjaramál Ríkissáttasemjari tók á móti deiluaðilum í húsakynnum sínum í gær. Næsti fundur er boðaður 9. janúar.
Kjaramál Ríkissáttasemjari tók á móti deiluaðilum í húsakynnum sínum í gær. Næsti fundur er boðaður 9. janúar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

„Ég ætla bara að vera bjartsýn og ég finn að þetta var rétt ákvörðun,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, en fyrsti fundur Samtaka atvinnulífsins, VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness hjá ríkissáttasemjara fór fram í gær. Að sögn hennar var „það eina rétta í stöðunni“ að vísa kjaradeilunni inn á borð sáttasemjara. Næsti fundur er boðaður 9. janúar.

Sólveig Anna segir fundinn í gær hafa verið stuttan þar sem tækifæri gafst til að fara yfir greinargerð verkalýðsfélaganna VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness um hvers vegna ákveðið var að vísa málinu til ríkissáttasemjara. Þá segir Sólveig Anna félögin leggja „ríka áherslu á það, þó að það sé ekki inni á þessu borði, að aðkoma stjórnvalda skiptir máli, sem sagt hvað þau hyggjast gera í þeim málum sem snúa að sköttum og húsnæði“.

Fyrri viðræður sagðar góðar

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir það ekki hafa verið val SA að vísa kjaraviðræðum til ríkissáttasemjara og að eðlilegra væri að halda áfram þeim viðræðum sem voru í gangi. Að sögn hans var gangur þeirra viðræðna góður.

Spurð hvort hún sé sammála orðum framkvæmdastjórans um ágæti fyrri viðræðna svarar Sólveig Anna: „Ég er ekki sammála því.“ Þá segir hún að ekki hafi verið ástæða til þess að ræða tillögur SA um breytingar á vinnutíma og allri vinnutilhögun. „Við gátum ekki samþykkt að þurfa að ræða okkur í gegnum þær tillögur til þess að fá að ræða hvað samtökin teldu að væri til skiptanna.“