Jón Birgir Eiríksson
jbe@mbl.is
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að ýmsar hækkanir á gjöldum sem taka gildi nú um áramót „tali beint inn í kjarasamningsviðræður“ fram undan. Ýmis opinber gjöld hækka, hvort tveggja hjá ríki og sveitarfélögum.
„Allar hækkanir, breytingar á gjaldskrám og hreyfingar hjá hinu opinbera sem hafa áhrif á kjör fólks tala inn í kjarasamninga. Nú bera allir ábyrgð á því að ná settum markmiðum, þ.e.a.s. að þyngja ekki róðurinn heldur létta hann fyrir tekjulægstu hópana. Fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að það skuli stefnt að því að hækka laun þeirra lægst launuðu. Við verðum öll að róa í sömu átt,“ segir Drífa.
Aðspurð segir hún ASÍ hafa viljað sjá frekari aðgerðir af hálfu stjórnvalda, einkum í húsnæðis- og skattamálum. „Ríkisstjórnin hreykir sér af því að hafa hækkað persónuafslátt umfram verðlag. Þetta eru rúmlega fimm hundruð krónur og þær vega ekki rosalega þungt. Barnabætur eru ekki orðnar það sama og þær voru fyrir tíu til fimmtán árum,“ segir hún.
Almennar hækkanir í kortunum
„Almennt þarf að vinda ofan af gjaldtöku í velferðarkerfinu, hvort sem það er í heilbrigðis-, mennta-, leikskólamálum eða hverju sem er. Gjaldtaka í velferðarkerfi er í raun nefskattur og kemur niður á þeim sem hafa verstan fjárhag [...],“ segir Drífa.
Meðal gjalda sem hækka um áramót eru áfengis- og tóbaksgjöld auk eldsneytisgjalda. Samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda mun bensínverð hækka um 3,3 krónur á lítra og dísilolía um 3,1 krónu á lítra um áramót.
Hjá Reykjavíkurborg hækka m.a. gjöld fyrir lánsskírteini á Borgarbókarsafni Reykjavíkur og gjald fyrir staka sundferð fullorðinna. Leikskólagjöld hækka um 2,9% sem og fæðisgjöld og gjald vegna þjónustu frístundaheimila.