Hringvegurinn liggur nú um Vaðlaheiðargöng eftir að þau voru opnuð fyrir umferð. Fyrir opnun ganganna lá hringvegurinn um Víkurskarð, utar í Eyjafirði. Þetta kemur fram í frétt á vef Vegagerðarinnar.
Auk þess að losna við farartálmann Víkurskarð, velji vegfarendur göngin, þá styttist hringvegurinn um 16 kílómetra og að sama skapi leiðin milli Akureyrar og Húsavíkur. Eftir þessa breytingu verður hringvegurinn 1.323 kílómetrar. Vegurinn á milli Akureyrar og Húsavíkur styttist úr 91 kílómetra í 75.
Áfram verður hægt að fara veginn um Víkurskarð eftir Grenivíkurvegi (83) og Víkurskarðsvegi (84). Víkurskarð er 325 metra yfir sjávarmáli, erfiður fjallvegur miðað við hæð og hefur verið einn helsti farartálmi hringvegarins. Brekkur eru erfiðar, með 9% halla þar sem mest er. „Aðalmarkmið með Vaðlaheiðargöngum er að losna við að fara yfir Víkurskarð, styttingin kemur svo að auki,“ segir í fréttinni á veg Vegagerðarinnar. Vaðlaheiðargöngin verða formlega opnuð 12. janúar næstkomandi. sisi@mbl.is