Edda Björgvinsdóttir í hlutverki Vigdísar Finnbogadóttur að panta pítsu.
Edda Björgvinsdóttir í hlutverki Vigdísar Finnbogadóttur að panta pítsu. — Skjáskot RÚV
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Heldur þótti mér áramótaskaup sjónvarpsins lélegt, nú eins og raunar oftast áður.

„Heldur þótti mér áramótaskaup sjónvarpsins lélegt, nú eins og raunar oftast áður. Þó fannst mér fyrst taka út yfir allan þjófabálk þegar Friðrik Ólafsson stórmeistari var fenginn til að flytja lélega brandara sem „hátíðanefndin“ hafði samið. Friðrik er slíkt prúðmenni að hann hefur ekki fundið sig í því að neita þessu en heldur var þetta allt saman lélegt og ekki sízt með gjaldkerabragðið. Þar þótti mér illa farið með góðan dreng.“

(Lesendabréf um Skaupið 1978)

Skaupið er umræðuefni langt fram á nýtt ár og ósjaldan tilefni blaðaskrifa sem þessara. Stundum hefur orðið fjaðrafok. Eitt það mesta varð vegna skaupsins 1994 og einn af handritshöfundunum þá, Edda Björgvinsdóttir, sagði þá í viðtali að á 17 ára áramótaskaupsferli sínum hefðu hún og samhöfundar skaupsins aldrei lent í öðrum eins pólitískum ofsóknum og það frá ráðamönnum en almenning upplifði hún ánægðan.

Edda sagði í viðtali við DV að Vigdís Finnbogadóttir hefði fengið sent handrit af sínum þætti í skaupinu. Það hefði hins vegar komið á daginn að Vigdísi barst ekki handritið en leikstjóri skaupsins, Guðný Halldórsdóttir, hafði þá samband við hana eftir á og sagðist Vigdís ekki vera ósátt við skaupið. Einn hinna ósáttu, sem kallaði skaupið rætið, var hins vegar Ólafur G. Einarsson, þáverandi menntamálaráðherra en hann var kallaður apaköttur í skaupinu. Fram kom að Heimir Steinsson, þáverandi útvarpsstjóri, hefði viljað taka það atriði út en dagskrárstjóri Sjónvarpsins var ekki á sama máli og vildi leyfa því að standa og ekki var hróflað við því.

„Til þessa hefur það þótt dónaskapur að taka ráðherrana ekki fyrir. Það hafa komið kvartanir frá ráðherrum sem ekki hafa verið hafðir með í áramótaskaupum,“ sagði Edda einnig í viðtalinu og ítrekaði að apaköttur væri hreint ekki slæmt orð heldur vinalegt, það orð sem nota átti fyrst hefði verið verra.