[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Pétur Hreinsson peturhreins@mbl.is Olíuverð hefur sveiflast afar mikið á árinu sem er að líða. Í gærdag stóð verðið á tunnu af Brent-hráolíu í 52,21 bandaríkjadal.

Baksvið

Pétur Hreinsson

peturhreins@mbl.is

Olíuverð hefur sveiflast afar mikið á árinu sem er að líða. Í gærdag stóð verðið á tunnu af Brent-hráolíu í 52,21 bandaríkjadal. Á aðfangadag fór verðið á olíutunnu í 50,47 og hafði þá ekki verið jafn lágt í tæpa 18 mánuði eða síðan í lok júlí árið 2017. Á skömmum tíma hefur olíuverð lækkað um tæp 42% eða frá því í byrjun októbermánaðar síðastliðins er verðið fór í 86,29 bandaríkjadali. Á þeim tíma veðjuðu ýmsir fjárfestar á að verðið færi yfir 100 bandaríkjadala markið.

Brynjólfur Stefánsson, sérfræðingur í hrávörum hjá Íslandssjóðum, segir olíumarkaðinn hafa sveiflast með öðrum mörkuðum í Bandaríkjunum undanfarna daga. Hann segir helstu ástæður fyrir þessu lága verði vera áhyggjur fjárfesta af hægari hagvexti, viðskiptastríði Kína og Bandaríkjanna, auk þess sem viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna á Íran urðu ekki eins þungar og talið var í fyrstu. Þá hafi Bandaríkjamenn verið öflugir í sinni framleiðslu og saman hafi þetta skilað sér í bættri birgðastöðu.

Búast við hækkun á nýju ári

„Þá voru einnig bundnar töluverðar vonir við þennan niðurskurð sem OPEC og Rússar tilkynntu fyrir jólin um að draga úr framleiðslu sem nemur 1,2 milljónum tunna á dag. En það gerist ekki fyrr en í byrjun janúar,“ segir Brynjólfur en tekur það fram að helstu greinendur geri ráð fyrir hækkun á nýju ári. „Verðið er vissulega dálítið lágt. En það er ástæða fyrir því og mikil óvissa á mörkuðum.“

Snorri Jakobsson, sérfræðingur í fjármála- og hagfræðiráðgjöf Capacent, segir íslenska neytendur finna lítið fyrir sveiflum á heimsmarkaðsverði olíu og að innkaup á eldsneyti skipi sífellt minni hluta í vísitölu neysluverðs.

„Neytendur finna voða lítið fyrir miklum breytingum á heimsmarkaðsverði á olíu. Það er bara þannig að skattar eru langstærsti hluti eldsneytisverðsins. Við finnum lítið fyrir þessum breytingum því þetta er svo lítill hluti olíuverðsins. Við sjáum kannski 2-3% lækkun ef það er 10-20% á lækkun á heimsmarkaði,“ segir Snorri í samtali við Morgunblaðið.

Sífellt minni áhrif á vísitölu

Í umsögnum greiningaraðila hér á landi á þeim tíma þegar olíuverðið var á hraðri niðurleið í lok nóvember kom fram að verðbólga yrði umtalsvert lægri vegna lækkunarinnar. Að sama skapi hefði hið háa verð á eldsneyti í byrjun október átt að hafa þó nokkur verðbólguáhrif á móti.

„Ég var bara eiginlega ekki sammála þeim þegar þessi mikla hækkun átti sér stað. Hlutfall eldsneytis í vísitölu neysluverðs er alltaf að verða minna og minna og það eru einu beinu áhrifin sem við höfum af eldsneyti,“ segir Snorri.

Hann segir þó lækkunina á heimsmarkaðsverði vera jákvæða fyrir Íslendinga.

„Þetta minnkar flutningskostnað á öllu hráefni til Íslands. Við flytjum meira og minna allt inn. Lágt olíuverð er alltaf gott fyrir Ísland,“ segir Snorri sem leggur einnig áherslu á mikilvægi hins lága olíuverðs fyrir flugfélögin.

„Flugfargjöld eru miklu næmari fyrir þessu. Þetta hefur gríðarleg áhrif á flugfélögin. Rekstraraðstæður þeirra eru gjörbreyttar,“ segir Snorri.

Olíuverð
» Í gærdag var verð á tunnu af Brent-hráolíu 52,21 bandaríkjadalur.
» Í byrjun október var verðið á tunnu 86,29 bandaríkjadalir.
» Ástæður lágs verðs eru m.a. áhyggjur fjárfesta af hægari hagvexti og viðskiptastríði Bandaríkjanna og Kína.
» Þetta lága verð endurspeglast ekki í eldsneytisverði hér á landi að mati sérfræðings.