Kerti skreytimynd
Kerti skreytimynd — ThinkstockPhotos
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Af hverju eru ennþá einbreiðar brýr á hringveginum? Gerum við nóg til að koma í veg fyrir hættur á vegunum?

Harmleikurinn í umferðinni milli jóla og nýárs, þegar lítið barn og tvær konur létust, færir ákveðinn drunga yfir hátíðina. Það er erfitt að hugsa til þess að það sem átti að vera ævintýraferð í nýju landi hafi skyndilega breyst í skelfilegan og nær óhugsandi hrylling. Hugurinn er hjá þeim sem eiga um sárt að binda vegna banaslyssins við Núpsvötn.

Átján manns eru látnir í umferðinni á árinu 2018. Sú tala er skelfilega há en samt segir hún vitanlega ekki alla söguna. Þá eru ótaldir þeir sem slasast alvarlega og aðstandendur látinna og slasaðra, sem slysin hafa líka mikil áhrif á.

Aldrei verður hægt að koma í veg fyrir öll slys, líklega átta sig flestir á því. En það hlýtur að vera skylda okkar, ekki síst sem gestgjafa allra þeirra ferðamanna sem hingað sækja ár hvert, að gera allt sem hægt er til að gera vegina sem öruggasta. Er í alvörunni ekki hægt að gera meira? Af hverju eru ennþá einbreiðar brýr á hringveginum? Gerum við nóg til að koma í veg fyrir hættur á vegunum?

Líklega verða aldrei allir sammála um í hvaða verkefni á að setja fé. Hvaða vegur er verstur, á hverju liggur helst og svo framvegis. En það er því miður ljóst að vegakerfið annar ekki öllu því sem á það er lagt. Önnur jólin í röð verður banaslys í umferðinni á slóðum þar sem margir ferðamenn fara um á þessum árstíma. Við hljótum að geta gert meira, það bara getur ekki annað verið. Það skiptir öllu máli að fólk komist heilt heim, hver sem vegurinn kann að vera.