Starfsfólk sorphirðunnar í Reykjavík hefur haft í nægu að snúast um hátíðarnar sem eru mikill álagstími.
Unnið verður í Vesturbæ og í Breiðholti um helgina og lokið var við að hirða Grafarvog í gær.
Unnið verður við losun á gráum tunnum undir blandaðan úrgang í Vesturbæ og Miðbæ í dag og á morgun. Einnig verða tunnur undir pappír og plast losaðar í Breiðholti.
Magn úrgangs eykst í kringum hátíðirnar. Hægt er að kaupa sérmerkta poka undir aukaúrgang sem eru seldir fimm saman á rúllu hjá N1 stöðvum í Reykjavík og í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14. Einnig er hægt að fara með úrgang á grenndar- eða endurvinnslustöðvar ef úrgangur rúmast ekki í ílátum við heimili. Opið verður á endurvinnslustöðvum SORPU á milli hátíða í dag og á morgun.