Eins og síðastliðin þrjú ár verður talið niður í áramótin á ljósahjúp Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík.
Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, segir að Harpa sé orðin stór hluti af þeirri skemmtilegu áramótahefð að telja niður árið við þekkt kennileiti í ýmsum borgum víða um heim.
„Hjúpurinn í Hörpu er nokkurs konar lifandi strigi sem við málum á til að fagna sérstökum tilefnum. Við erum alltaf að þróa þá fjölbreyttu möguleika áfram. Ég held að flestir sjái þetta sem órjúfanlegan hluta þessa fallega húss okkar,“ segir Svanhildur og upplýsir að það sé mikið um að fólk komi saman í miðbæ Reykjavíkur um áramót og þá ekki síst erlendir ferðamenn sem líti á heimsókn í Hörpu sem ómissandi hluta af ferðinni.