— Morgunblaðið/Ásdís
Hvernig verður árið 2019? Árið verður köflótt. Það koma góðir kaflar og slæmir, eins og í lífinu. Ég sé verkfall og ég sé líka hræðslu við annað hrun. Ég upplifi svolítið stress í fólki. Það er hrætt við verkföll, efnahagslífið og eldgos.
Hvernig verður árið 2019?

Árið verður köflótt. Það koma góðir kaflar og slæmir, eins og í lífinu. Ég sé verkfall og ég sé líka hræðslu við annað hrun. Ég upplifi svolítið stress í fólki. Það er hrætt við verkföll, efnahagslífið og eldgos. Það er skjálfti í fólki.

Sérðu náttúruhamfarir?

Já, já, ég geri það. Það er alveg viðbúið að það komi jarðskjálfti og eldgos.

Hvernig verður veðurfarið, fáum við gott sumar?

Já, það verður miklu betra en þetta árið.

Hvað notar þú til þess að spá fyrir um árið?

Ég spái í spil og kristalskúlu.

Kemur þetta til þín í myndum?

Já, ég er skyggn, þannig að ég fæ þetta mikið til mín í myndum.

Er eitthvað sérstakt sem þjóðin á að varast á árinu?

Ég held að fólk þurfi að hlúa að sér og passa upp á kvíðann. Ég sé óttakvíða hjá þjóðinni.

Hvað með pólítíkina, hvað sérðu í þeim efnum?

Klaustursþingmennirnir segja ekki af sér. Ég sé ekki annað en að ríkisstjórnin haldi áfram á þessu ári.

Hvað er það jákvæðasta við árið 2019?

Veðráttan finnst mér í heildina vera fín og það léttir á fólki.

En þitt ár, áttu gott ár í vændum?

Já, ég á von á því, ég er búin að eiga tvö frekar erfið ár. Ég fór í hnéskiptiaðgerð núna í haust og er að jafna mig eftir það. Ég vona að 2019 verði ár með trukki hjá mér.

Ertu búin að finna í gegnum vinnu þína tilgang lífsins?

Já. Að þroska sálina mína, klárlega. Og mesta áskorun lífsins er þolinmæði.