Tækniskólinn Meginstarfsemi skólans fer fram á Skólavörðuholti, í húsi því sem áður hýsti Iðnskólann í Reykjavík.
Tækniskólinn Meginstarfsemi skólans fer fram á Skólavörðuholti, í húsi því sem áður hýsti Iðnskólann í Reykjavík. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Forsvarsfólk Tækniskólans, skóla atvinnulífsins, vinnur að könnun á staðsetningarkostum varðandi mögulega sameiningu allrar starfsemi skólans á einum stað. Áætluð stærð ný skólahúss er u.þ.b. 30 þúsund fermetrar.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Forsvarsfólk Tækniskólans, skóla atvinnulífsins, vinnur að könnun á staðsetningarkostum varðandi mögulega sameiningu allrar starfsemi skólans á einum stað. Áætluð stærð ný skólahúss er u.þ.b. 30 þúsund fermetrar.

Tækniskólinn er í dag starfræktur í 10 aðskildum húsum á fjórum stöðum í Reykjavík og Hafnarfirði. Nemendur eru nú um 2.500 og starfsmenn um 250 talsins.

Í september sl. rituðu forsvarsmenn skólans bréf til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og óskuðu eftir viðræðum við borgina um lóð undir skólahúsið.

Borgarráð var jákvætt

Borgarráð tók jákvætt í erindi Tækniskólans um fyrirhugaða nýbyggingu og fól umhverfis- og skipulagssviði og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að vinna með skólanum að könnun á mögulegum staðsetningarkostum.

Í bréfi Tækniskólans kemur fram að skólinn sjái fyrir sér að mannvirkið samanstandi m.a. af yfirbyggðu „skólastræti“ sem skólar Tækniskólans raði sér í kringum. Gera þurfi ráð fyrir því að reisa megi nemendagarða við eða í nágrenni nýs skóla. Fram kemur í bréfinu að áætlaður nemendafjöldi yrði um 3.000 með möguleika á fjölgun í 5.000 með auknum húsakosti. Starfsmenn verði um og yfir 300 talsins í framtíðinni. Lögð er áhersla á að staðsetning skólahúsnæðisins verði vel tengd við umferðarkerfi og leiðakerfi almenningssamgangna.

Fram kemur í greinargerð Björns Axelssonar, skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar, að sé horft til frumþarfagreiningar Tækniskólans hvað varðar staðsetningu skólans innan marka Reykjavíkur komi tveir nokkuð ákjósanlegir valkostir til greina. Hér sé horft til tveggja stærstu framtíðaruppbyggingarsvæða borgarinnar sem fram koma í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 -2030, þ.e. Vatnsmýrar og Ártúnshöfða-Elliðaárvogs. Fyrirhuguð borgarlína muni liggja um bæði svæðin og miðað við stærð og umfang sé eðlilegt að gera ráð fyrir að nýr skóli tengist þeim leiðum með beinum hætti. Færa megi rök fyrir því að jákvæð áhrif skólans gætu ef til vill orðið meiri á heildina litið í Elliðaárvogi-Ártúnshöfða þar sem nú stendur yfir skipulagsvinna fyrir um 6-7 þúsund íbúðir. Skólinn yrði jafnframt veruleg lyftistöng fyrir miðkjarna þess svæðis, Krossmýrartorg, sem borgarlínukjarna og endapunkt fyrsta áfanga borgarlínu eins og áætlanir gera ráð fyrir.

Rýmisþörf er umtalsverð

„Rýmisþörf skólans er þó umtalsverð og ljóst að mannvirki og lóð kalla á nokkurt niðurrif á eldra húsnæði í Elliðaárvogi og á Ártúnshöfða og ætla má að staðsetning í Vatnsmýri kalli á breytingar á afmörkun flugvallarsvæðisins að einhverju leyti,“ segir Björn.

Tækniskólinn var stofnaður 1. júlí árið 2008 með sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskólans. Skólinn er einkarekinn.

Stjórn skólans hefur skipað þriggja manna bygginganefnd og hefur Jón B. Stefánsson, fyrrverandi skólameistari skólans, verið ráðinn verkefnastjóri.

Fram kemur í bréfi stjórnar skólans til borgarstjóra að hún líti svo á að nýbygging fyrir skólann verði veruleg lyftistöng fyrir starfs- og iðnnám í landinu. Langt sé um liðið síðan reist hafi verið skólahúsnæði sérhannað fyrir samtvinningu starfs-, iðn- og bóknáms með þeim hætti sem nú sé áformað.