Albert Þór Jónsson
Albert Þór Jónsson
Eftir Albert Þór Jónsson: "Þjóðarátak í byggingu á einföldu og öruggu húsnæði fyrir alla landsmenn á öllum aldri er stærsta skrefið að breiðri sátt á vinnumarkaði."

Fordæmalausar skattahækkanir á Íslandi á undanförnum átta árum hjá Ríkissjóði Íslands og Reykjavíkurborg og hækkun launa æðstu embættismanna ríkisins hafa leitt til þess að fyrirtæki og einstaklingar geta ekki lengur haldið uppi óhagkvæmum ríkisrekstri með yfirbyggingu sem ekki virkar.

Skattar á Íslandi eru í hæstu hæðum og ríkisútgjöld hafa hækkað um 200 milljarða króna á undanförnum átta árum þar sem framleiðni í dýrustu kerfunum er lítil og verðmætasköpun sáralítil eða engin í mörgum tilfellum. Í þeim samanburði er til að mynda áætlaður tekjuskattur einstaklinga 200 milljarða króna á árinu 2019. Í kjarasamningum á árinu 1990 var gerð þjóðarsátt á vinnumarkaði hjá þeim aðilum sem komu að kjarasamningum.

Fulltrúum atvinnurekenda, verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar tókst að binda enda á óreiðu sem hafði ríkt í efnahagsmálum í nokkra áratugi. Það er ekki ólíklegt að við stöndum á svipuðum tímamótum á vinnumarkaði í dag og því sé mikilvægt á næstu misserum að ná breiðri þjóðarsátt á vinnumarkaði. Ríkissjóður hefur ekki nýtt tækifærið til að draga úr ríkisúgjöldum og lækka skatta en flestir skattstofnar eru fullnýttir og mjög háir í alþjóðlegum samanburði. Nýting og arðsemi fjármuna við rekstur og til fjárfestinga er slök á mörgum sviðum. Stærsta sveitarfélag landsins er með alla skattstofna fullnýtta en á sama tíma nema heildarskuldir sem hlutfall af reglulegum tekjum 187%, sem er töluvert yfir lagaskyldu.

Það liggur í augum uppi að það er kominn tími á verðmætasköpun og hagræðingu í opinberum rekstri á Íslandi. Opinberan rekstur á Íslandi þarf að endurskoða með því að lækka útgjöld og auka fagmennsku við fjárfestingar sem eru oft á tíðum slakar. Skattgreiðendur og almenningur á Íslandi gera auknar kröfur til opinbers rekstrar þar sem allir skattstofnar eru nú fullnýttir en árangurinn undanfarin átta ár er slakur og verðmætasköpun lítil. Þjóðarsáttin gæti falist í meðal annars þjóðarátaki í byggingu á einföldu og öruggu húsnæði fyrir alla landsmenn á öllum aldri, hækkun persónuafsláttar, hagræðingu í opinberum rekstri, lækkun ríkisútgjalda um 5%, lækkun skatta tekjulægstu hópa samfélagsins, hagræðingu í bankakerfinu með sölu Íslandsbanka og Landsbanka Íslands, aukinni samkeppni á lánamarkaði og lækkun vaxta.

Þjóðarátak í byggingu á húsnæði fyrir alla

Mikilvægt er að hefja þjóðarátak í íbúðarmálum Íslendinga með því að koma með einfaldar og hagkvæmar lausnir. Lífshættir fólks eru að breytast hratt þar sem fólk vill einfaldar og snjallar lausnir í íbúðarmálum sínum. Þar skiptir miklu máli að húsnæðið sé ódýrt og taki mið af kaupmætti fólks. Auk þess skiptir öryggi í húnæðismálum flesta einstaklinga miklu máli. Mikilvægt er að fyrstu kaup séu hagkvæm og skynsamleg fyrir sem flesta á íbúðamarkaði. Í ljósi þessa mikla ójafnvægis sem er nú á íbúðamarkaði er mikilvægt að sveitarfélög, stéttarfélög og lífeyrissjóðir taki höndum saman í að lyfta grettistaki í húsnæðismálum Íslendinga. Sveitarfélög þurfa að tryggja nægt lóðaframboð af ódýrum lóðum, stéttarfélög að standa vaktina og tryggja hagsmuni sinna félagsmanna. Lífeyrissjóðir geta veitt sjóðfélagalán sem eru mjög hagkvæmur kostur fyrir flesta sjóðfélaga þar sem lánstími er langur og vaxtakjör með því besta sem gerist á markaði.

Þjóðarátak í byggingu á einföldu og öruggu húsnæði fyrir alla landsmenn á öllum aldri er stærsta skrefið að breiðri sátt á vinnumarkaði. Flesta dreymir um einfalt og öruggt húsaskjól og að útborguð laun nægi fyrir mikilvægustu nauðsynjum. Samtökum atvinnulífsins og verkalýðshreyfingunni ber skylda til að ná góðri sátt í þessu mikilvægasta hagsmunamáli allra landsmanna.

Hækkun persónuafsláttar, hagræðing í opinberum rekstri og lækkun skatta eru atriði sem liðka fyrir þjóðarsátt á vinnumarkaði.

Hækkun persónuafsláttar og lækkun skatta gæti aukið líkur á góðum árangri í samningum á vinnumarkaði. Mikilvægi þess að nálgast verkefnið með opnum hug fyrir snjöllum hugmyndum sem auka verulega líkur á góðum árangri.

Undanfarin ár hefur ríkissjóður ekki nýtt færi til verðmætasköpunar, hagræðingar og aukinnar framleiðni í rekstri og fjárfestingum. Með lækkun ríkisútgjalda um 5% væri hægt að lækka skatta tekjulægri hópa og tryggingargjald fyrirtækja verulega og koma þannig til móts við verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur í ljósi fordæmalausra hækkana hjá sumum hópum ríkisstarfsmanna með ákvörðunum Kjararáðs. Hagræðing í bankakerfi með sölu ríkisbankanna, aukinni samkeppni á lánamarkaði og lækkun vaxta gæti leitt til betri kjara fyrir þá sem eru að kaupa sér einfalt og hagkvæmt íbúðarhúsnæði.

Nú þurfa allir sem hafa aðkomu að þessari „Nýju þjóðarsátt“ að bretta upp ermar og klára þetta mál þannig að Ísland geti mætt framtíðinni með raunhæfum og skynsamlegum lausnum sem er mikilvægasti þátturinn í árangri til lengri tíma. Góð byrjun væri að lækka skatta verulega, hagræða verulega í ríkisrekstri og ná ríkisútgjöldum niður um 100 milljarða króna og auka framleiðni og verðmætasköpun á öllum sviðum ríkisrekstrar og sveitarfélaga. Mikilvægt er að „menning“ hjá opinberum aðilum verði tekin föstum tökum þannig að þeir sem stjórna og starfa í opinberum rekstri fyrir íslenska skattgreiðendur gæti hagsmuna Íslands og Íslendinga.

Höfundur er viðskiptafræðingur, með MCF í fjármálum fyrirtækja og 30 ára starfsreynsla á fjármálamarkaði albertj@simnet.is

Höf.: Albert Þór Jónsson