Sýrland Sýrlenskir uppreisnarmenn sem njóta stuðnings Tyrkja safnast hér saman í Sajour, stutt frá Manbij. Kúrdar hafa hleypt stjórnarher Assads inn á svæðið og munu þessir hópar því brátt eiga við ofurefli að etja.
Sýrland Sýrlenskir uppreisnarmenn sem njóta stuðnings Tyrkja safnast hér saman í Sajour, stutt frá Manbij. Kúrdar hafa hleypt stjórnarher Assads inn á svæðið og munu þessir hópar því brátt eiga við ofurefli að etja. — AFP
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.is Stjórnarher Sýrlands hefur svarað kalli kúrdískra skæruliða í norðurhluta landsins um hernaðaraðstoð gegn Tyrkjum. Frá þessu er greint á fréttasíðum AFP og The Guardian .

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Stjórnarher Sýrlands hefur svarað kalli kúrdískra skæruliða í norðurhluta landsins um hernaðaraðstoð gegn Tyrkjum. Frá þessu er greint á fréttasíðum AFP og The Guardian . Rúmlega 300 sýrlenskir hermenn eru komnir til bæjarins Manbij, sem hefur lotið kúrdískum yfirráðum frá árinu 2016 og hafa þar gengið í nýtt bandalag við Kúrda. Í bænum eru einnig staðsettir bandarískir og franskir hermenn en áætlað er að bandarísku hermennirnir hafi sig á brott úr landinu á næstu mánuðum vegna óvæntrar ákvörðunar Donalds Trump Bandaríkjaforseta þess efnis fyrr í mánuðinum.

Líklegt er að tilkynningin um brottför Bandaríkjamanna hafi haft áhrif á þessar hræringar í Sýrlandi. Tyrkir hafa frá því í janúar staðið í hernaðaraðgerðum til þess að uppræta yfirráð Verndarsveita Kúrda (YPG) í norðurhluta Sýrlands, þar sem þeir telja að Kúrdarnir styðji hryðjuverkahópa og aðskilnaðarhreyfingar innan Tyrklands. Eftir tilkynningu Trumps lýsti Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti því yfir að Tyrklandsher myndi á næstu mánuðum ráðast í frekari hernaðaraðgerðir gegn bæði Verndarsveitum Kúrda og Ríki íslams.

Kúrdarnir hafa lengi verið helstu bandamenn Bandaríkjamanna í baráttunni við hryðjuverkahópa eins og Ríki íslams í Írak og Sýrlandi og margir telja þeir sig því illa svikna vegna ákvörðunar Trumps um brottför hersins. Boð Kúrdanna til Sýrlandshers er að því er virðist tilraun til að bjarga því sem bjargað verður af landvinningum þeirra þrátt fyrir að bandalag við stjórn Bashars al-Assad Sýrlandsforseta muni að öllum líkindum kosta þá drauminn um sjálfstætt kúrdískt þjóðríki.

„Við bjóðum sýrlenska stjórnarhernum [...] að taka við stjórn þeirra svæða sem hersveitir okkar hafa dregið sig frá, sérstaklega í Manbij, og vernda þessi svæði gegn innrás Tyrkja,“ sögðu Verndarsveitir Kúrda í yfirlýsingu sinni um boðið til Sýrlandshers.

Áætlað er að sýrlensku hermennirnir muni taka sér stöðu á milli kúrdíska yfirráðasvæðisins og tyrknesku landamæranna. Ekki er gert ráð fyrir beinum átökum á milli þeirra og Tyrkja þar sem stríðsástand ríkir ekki á milli Tyrklands og Sýrlands. Því verða Kúrdar hólpnir fyrir framsókn Tyrkja um sinn ef allt gengur að óskum.

Tyrkir hafa brugðist reiðir við boði Kúrda til Sýrlandshers og segja Kúrda „engan rétt“ hafa til þess að biðla til utanaðkomandi aðila um hernaðarvernd fyrir hönd íbúa á svæðinu. Viðbrögð Rússa, sem hafa veitt Sýrlandsher ómetanlega hjálp í borgarastyrjöldinni, hafa hins vegar verið jákvæð.

„Auðvitað mun þetta stuðla að auknum stöðugleika á svæðinu,“ sagði Dímítrí Peskov, talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar. „Stækkun á yfirráðasvæði stjórnarhersins [...] er án efa jákvæð þróun.“

Assad sigurstranglegur

Bashar al-Assad Sýrlandsforseti, sem hefur barist gegn ýmsum uppreisnarhreyfingum í um átta ár, virðist nú vera skrefi nær því að sameina Sýrland á ný undir sinni stjórn. Stjórn hans hefur á árinu endurheimt mikinn hluta landsins úr höndum uppreisnarhópa með hjálp Rússa og Írana. Samhliða þessum hernaðarsigrum reynir Assad nú jafnframt að ná fótfestu á alþjóðasviðinu. Kúgunaraðferðir og ofbeldi sem stjórn Assads beitti Sýrlendinga við upphaf styrjaldarinnar fyrir átta árum leiddu til þess að Sýrland Assads féll úr náð flestra grannríkja sinna en sigurhorfur Assads virðast nú hafa hvatt arabaríkin til þess að taka hann í sátt.

Sameinuðu arabísku furstadæmin opnuðu á fimmtudaginn sendiráð sitt í Damaskus, sex árum eftir að hafa slitið stjórnmálasambandi við stjórn Assads og viðurkennt stjórn uppreisnarhóps sem nú er úr sögunni. Barein hyggst fylgja fordæmi þeirra og búist er við því að Sádi-Arabía geri það einnig á næstu dögum. Arababandalagið hefur lýst því yfir að stjórn Assads gæti brátt tekið aftur við sæti Sýrlands í samtökunum.