Stefán Jón Hafstein
Stefán Jón Hafstein
„Tungumál frumbyggja eru dýrmæt menning,“ segir Stefán Jón Hafstein sem í áraraðir stýrði ýmsum verkefnum Íslendinga á sviði þróunarsamvinnu í Afríku. Stóð meðal annars vaktina í Namibíu og var þá í nálægð við San-fólkið svonefnda.

„Tungumál frumbyggja eru dýrmæt menning,“ segir Stefán Jón Hafstein sem í áraraðir stýrði ýmsum verkefnum Íslendinga á sviði þróunarsamvinnu í Afríku. Stóð meðal annars vaktina í Namibíu og var þá í nálægð við San-fólkið svonefnda. Sá hópur telur nokkur hundruð þúsund og býr í dreifðum hópum og smáþorpum úti í Kalahari-eyðimörkinni sem teygir sig yfir hluta Namibíu og Botsvana.

Elstu mannvistarleifarnar í Namibíu eru hellamálverk, þau elstu 25 þúsund ára gömul. Þar voru að verki svonefndir Búskmenn, sem nú kallast Sanar, eða San-fólkið, frumbyggjar landsins. Þeir lifðu flökkulífi sem veiðimenn og safnarar og voru lítt áreittir af öðrum mannanna börnum. Tungumál þeirra eru nokkur og einkennast af svonefndum klikk-hljóðum þegar smellt er í góm, en sum þeirra eiga ekkert ritmál og lítið er um ritaðar heimildir.

Þarft framtak

„Þegar ég var í Namibíu árið 2007 stóð til að Íslendingar kæmu að þróunaraðstoð við San-fólk með byggingu og rekstri leikskóla. Að koma þannig til móts við yngsta aldurshópinn var talin góð leið til að valdefla frumbyggjahópana, sem eru algjörlega á jaðri mannlegs samfélags í Namibíu. Raunar eiga þessir frumbyggjahópar undir högg að sækja í flestum löndum. Því er mjög þarft framtak hjá Sameinuðu þjóðunum að vekja athygli á stöðu frumbyggja og tungumálanna, sem með öðru skapa sérstöðu þeirra,“ segir Stefán Jón Hafstein.