England
Guðmundur Hilmarsson
gummih@mbl.is
Það er óhætt að segja að það hafi hafa skipst á skin og skúrir hjá Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum hans í Everton í jólaleikjunum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Eftir harðan skell gegn Tottenham á heimavelli 6:2 á Þorláksmessu svöruðu liðsmenn Everton með 5:1 útisigri gegn Burnley á öðrum degi jóla og eftir fimm leiki án sigurs gátu Gylfi og samherjar hans fagnað sigri. Gylfi skoraði í báðum þessum leikjum og hefur þar með skorað átta mörk í deildinni á tímabilinu og er aðeins einu marki frá því að jafna met Eiðs Smára Guðjohnsen en hann er markahæsti Íslendingurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar með 55 mörk.
Morgunblaðið sló á þráðinn til Gylfa, sem stendur í ströngu eins og knattspyrnumennirnir á Englandi um þetta leyti árs. Það er þétt leikið og í dag sækir Everton lið Brighton heim og fær svo Leicester í heimsókn á nýársdag.
Gott að svara svona fyrir sig
„Ég get ekki neitað því að maður er ansi lúinn eftir þessa törn en það er enginn tími til að hugsa um það. Það er stutt í næstu leiki og maður verður bara vera fljótur að jafna sig og gera sig kláran í næsta leik,“ sagði Gylfi Þór en hann hefur verið í byrjunarliðinu í öllum 19 deildarleikjum Everton á leiktíðinni.„Það var gríðarlega gott að svara svona vel fyrir sig í leiknum á móti Burnley eftir þessa útreið sem við fengum á móti Tottenham. Við byrjum leikinn gegn Tottenham af krafti en við gáfum þeim fyrsta markið og fórum illa að ráði okkar eftir það. Það gekk allt upp hjá Tottenham, sem er með frábært lið, en að tapa svona stórt á heimavelli var ansi mikið högg fyrir okkur. En það þýðir ekkert að hengja haus og við náðum að þjappa okkur vel saman fyrir leikinn á móti Burnley. Við náðum forystu eftir tvær mínútur og við gerðum út um leikinn á fyrsta hálftímanum,“ sagði Gylfi, sem skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu en honum hafði brugðist bogalistin af vítapunktinum í tveimur síðustu vítaspyrnunum sem hann tók fyrir Everton.
„Stjórinn sagði við mig eftir Watford-leikinn þar sem ég klikkaði úr vítaspyrnu að ég tæki næsta víti og það kom ekki til greina annað en að skora,“ sagði Gylfi, sem setti boltann örugglega framhjá Joe Hart, markverði Burnley og fyrrverandi markverði enska landsliðsins.
Veit varla hvaða dagur er
Everton er í áttunda sæti deildarinnar en með góðum úrslitum í leikjunum á móti Brighton og Leicester gæti liðið fikrað sig ofar á stigatöfluna.„Okkar bíður mjög erfiður útileikur við Brighton. Þetta er lið sem erfitt er heim að sækja og við sáum Arsenal tapa þar tveimur stigum á öðrum degi jóla. Síðan fáum við í heimsókn Leicester sem hefur unnið Chelsea og Manchester City í síðustu tveimur leikjum sínum. Við þurfum að spila mjög vel í þessum leikjum til að eiga möguleika á sigri. Þegar við lítum til baka eru leikir sem við erum mjög ósáttir með að hafa tapað en markmið okkar er að komast ofar á töfluna. Ég tel nær útilokað að við náum að blanda okkur í topp fjögur sætin eins og liðin sem eru þar eru að spila. Við erum vonandi komnir á sigurbraut og leikurinn á móti Burnley gefur okkur byr í seglin,“ sagði Gylfi Þór, sem hefur fátt annað gert um jólin heldur en að æfa og spila. „Maður veit varla hvaða dagur er. Það eina sem maður veit er hvenær liðið á leik og maður vinnur út frá því. Ég hef aðeins náð að fá mér íslenskan jólamat á milli leikja enda hefur konan verið dugleg í eldhúsinu. Ég er orðinn vanur þessari törn í kringum jól og áramót og mér finnst mjög gaman að spila á þessum tíma. Það er frábær stemning á völlunum en ég væri samt til í að fá aðeins meiri tíma á milli leikjanna.“
Ánægður með frammistöðuna
Spurður út í eigin frammistöðu á tímabilinu segir Gylfi:„Heilt á litið er ég bara mjög ánægður með mína frammistöðu. Það tók smátíma að komast í gírinn í byrjun tímabilsins og fyrir liðið að ná saman eftir breytingarnar sem gerðar voru á því,“ segir Gylfi, sem hefur eins og áður segir skorað átta mörk í deildinni á tímabilinu og er einu marki frá því að jafna met Eiðs Smára. „Vonandi næ ég að skáka Eiði og ef ég helst heill heilsu þá ætti það að takast. Það eru engin meiðsli að angra mig. Maður er auðvitað aðeins lemstraður en ég náði að jafna mig alveg í hnénu í fríinu eftir HM,“ sagði Gylfi en hann meiddist illa á hné í mars og um tíma var óttast að hann myndi missa af HM.
Liverpool, erkifjendur Everton úr bítlaborginni, eru með sex stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar deildin er hálfnuð og stuðningsmenn liðsins eru farnir að sjá Englandsbikarinn í hyllingum sem þeir hafa ekki séð lið sitt vinna frá því árið 1990. Gylfi er spurður að því hvort hann sjái fyrir sér að Liverpool fagni langþráðum titli í vor.
Tippar á Manchester City
„Hlutirnir geta verið fljótir að breytast í þessari deild. Menn sáu ekki fyrir sér að Manchester City myndi tapa leik en á skömmum tíma hefur liðið tapað þremur leikjum. Liverpool og City mætast í byrjun janúar og sá leikur getur ráðið miklu upp á framhaldið. Svo má alls ekki gleyma Tottenham í þessar baráttu. Það hafa ekki margir talað um það í þessum sambandi en allt í einu er liðið komið upp í annað sætið.En ef á að tippa á um verðandi meistara þá segi ég að Manchester City hafi þetta. Reynslan og gæðin í þeirra liði eiga eftir að vega þungt og ég sé ekki að liðið tapi mörgum leikjum til viðbótar á tímabilinu,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson, sem á þrjú og hálft ár eftir af samningi sínum við þá bláklæddu.