Ánægður Arnar Birkir Hálfdánsson kann vel við sig á Jótlandi. Hann skoraði eitt mark í vináttuleik gegn Katar í gær.
Ánægður Arnar Birkir Hálfdánsson kann vel við sig á Jótlandi. Hann skoraði eitt mark í vináttuleik gegn Katar í gær. — Morgunblaðið/Hari
Handbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Handknattleiksmaðurinn Arnar Birkir Hálfdánsson kann vel við sig hjá danska liðinu SönderjyskE en Arnar gekk til liðs við félagið frá Fram í sumar.

Handbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Handknattleiksmaðurinn Arnar Birkir Hálfdánsson kann vel við sig hjá danska liðinu SönderjyskE en Arnar gekk til liðs við félagið frá Fram í sumar. Er hann á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku og hefur farið nokkuð vel af stað.

„Það er huggulegt,“ sagði Arnar þegar Morgunblaðið spurði hann í gær hvernig lífið væri í Danmörku. „Ég kann mjög vel við mig. Þetta er þægilegur lítill bær og ég bý á góðum stað. Þar af leiðandi er stutt í allt.“

Arnar segir það hafa tekið sig tíma að komast inn í hlutina hjá liðinu á undirbúningstímabilinu en eftir að deildakeppnin hófst hafi honum engu að síður gengið vel. „Ég var frekar týndur á undirbúningstímabilinu en þegar tímabilið byrjaði small þetta hjá mér. Fyrsti mánuðurinn var erfiður. Ég skildi lítið og handboltinn var aðeins öðruvísi en sá sem ég hafði vanist. Hjá Fram þekkti ég náttúrlega allt eins og lófann á mér. Ég þurfti einn mánuð til að átta mig og þá kom þetta,“ útskýrði Arnar.

Mikil stemning á leikjum

Liðið er í Sönderborg á Jótlandi og Arnar segir liðið fá fínan stuðning hjá bæjarbúum. „Höllin tekur um 2.200 manns og á öllum heimaleikjum er margt fólk og mikill hávaði. Í raun er annaðhvort uppselt á leikina eða nærri því uppselt. Er það mjög skemmtilegt. Ég er þokkalega sáttur við hvernig liðinu gengur. Við erum í 8. sæti eða um miðja deild. Markmiðið er að vera á meðal átta efstu til að komast í úrslitakeppnina og við erum þar eins og staðan er en enn eru átta leikir eftir. Það munar miklu að vera á meðal átta efstu því hin liðin fara í umspil um að halda sæti sínu í efstu deild. Við viljum auðvitað losna við að vera í þeirri stöðu,“ sagði Arnar sem spilar eingöngu sem skytta hægra megin í sókninni. Í vörninni er hann annaðhvort bakvörður eða skiptir út af þegar liðið stillir upp í vörnina.

Arnar er 24 ára gamall og segist vera á fínum aldri til að stíga skrefið út í atvinnumennskuna. „Já, engin spurning. Þetta er eitt skref upp á við og vonandi á ég eftir að taka nokkur skref til viðbótar. Það eina sem ég geri þarna er að æfa handbolta, borða og vaska upp,“ sagði Arnar léttur og segist hafa gott tækifæri til að bæta sig sem leikmaður í Danmörku.

Kallið kom frá Guðmundi

Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson hefur veitt framgöngu Arnars athygli í vetur og valdi hann á dögunum í hópinn sem býr sig undir þátttöku á HM sem fram fer í janúar í Þýskalandi og Danmörku. „Ég geri mér aldrei neinar væntingar um að vera valinn í landsliðið en þetta er mikill heiður og mjög gaman að æfa með þessum strákum. Þetta eru alvörukarlar og þetta er góð reynsla fyrir mig. Auðvitað vilja allir vera í lokahópnum,“ sagði Arnar en landsliðshópurinn er nýkominn saman til æfinga og í gærkvöldi var fyrri vináttuleikurinn gegn Barein.

„Þetta er því enginn tími til að aðlagast, tveir dagar og síðan er leikur. En fyrst og fremst er þetta bara handboltaæfing. Ég hef einu sinni áður fengið að æfa með liðinu en þetta er í fyrsta skipti sem ég er í þessum tuttugu manna hópi,“ sagði Arnar Birkir Hálfdánsson þegar Morgunblaðið spjallaði við hann á landsliðsæfingu í gær.