Nú er hátíð kræsinganna. Hamborgarhryggur og hangikjöt, uppstúfur og Ora-baunir, heimalagaður ís og smákökur og vitaskuld malt og appelsín, hin óviðjafnanlega blanda.

Nú er hátíð kræsinganna. Hamborgarhryggur og hangikjöt, uppstúfur og Ora-baunir, heimalagaður ís og smákökur og vitaskuld malt og appelsín, hin óviðjafnanlega blanda. Það eitt að slá inn orðin verður til þess að Víkverji fær vatn í munninn

Víkverji er ekki vanur að stressa sig mikið fyrir jólin en er þó iðulega seinn með undirbúninginn. Að þessu sinni var þó allt á góðum tíma og ástæðan var einföld. Fyrir aðfangadag komu tveir helgardagar þar sem hægt var að sinna hinum ýmsu verkefnum í rólegheitum. Hann gæti alveg hugsað sér að hafa þetta fyrirkomulag fyrir hver jól.

Víkverji veit að fólk hefur ýmsa siði og ólíka fyrir jólin. Á aðfangadagsmorgun ákvað hann að bregða sér í sund og kom örtröðin honum á óvart. Slíkur var atgangurinn að hann þurfti að bíða eftir að komast í sturtu áður en hann fór út í laugina. Í lauginni sjálfri reyndust þó fáir. Leið manna virtist aðallega liggja í pottana. Og í eimbaðið. Þar mátti reyndar finna hvað einhverjir höfðu lagt sér til munns daginn áður. Var ekki laust við að eimur af skötu fyllti loftið þegar heit gufan opnaði svitaholur sundgesta.

Komst Víkverji að því hjá einum fastagesti í heita pottinum að svona væri þetta ævinlega að morgni aðfangadags, sundlaugin fylltist sem á sólríkum sumardegi, og það sama ætti við að morgni gamlársdags. Þá væri einnig vinsælt að fara í laugarnar.

Víkverji hefur haldið í þann sið að senda jólakort og er nú farið að líða eins og risaeðlu í þeim efnum. Jólakortunum hefur fækkað jafnt og þétt ár frá ári en nú var sem yrði hrun. Þessi jól gat hann talið jólakortin sem hann fékk á fingrum annarrar handar. Þessi ágæti siður virðist vera við það að deyja út og kveðjurnar berast ýmist í tölvupósti hafa færst yfir á félagsmiðla netsins.