Elísabet í miðri Góbí-eyðimörkinni.
Elísabet í miðri Góbí-eyðimörkinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Elísabet Margeirsdóttir utanvegahlaupari setti sér skýrt markmið um að hlaupa eitt erfiðasta utanvegahlaup í heimi, 409 kílómetra hlaup um Góbí-eyðimörkina, á undir 100 klukkustundum og það tókst. Hún er komin með ný markmið fyrir árið framundan. Eyrún Magnúsdóttir eyrun@mbl.is

Elísabet Margeirsdóttir komst enn á ný í fréttirnar á árinu fyrir það afrek sitt að ljúka 409 kílómetra hlaupi í Góbí-eyðimörkinni í Kína. Hún segir þó kílómetrafjöldann ekki alltaf vera aðalmálið, hlaupin gefi henni tækifæri til að sjá heiminn og ferðast til framandi staða. En hvernig hefur árið 2018 verið hjá þessum ofurhlaupara?

„2018 er búið að vera bara ótrúlega skemmtilegt ár og fjölbreytt. Ég fór í miklu fleiri og betri hlaup á árinu en ég bjóst við að ég myndi gera. Ég byrjaði árið á því að fara til Hong Kong í janúar og hljóp 100 kílómetra hlaup þar sem mér gekk hrikalega vel. Þessi tími ársins, vetrartíminn, hann gefur alveg vel af sér þótt flestir taki sér hlé á þessum tíma. Þannig að tímabilið byrjaði frekar snemma hjá mér.

Eitt af því sem stendur uppúr á árinu er að ég fór til Bútan sem er land í miðjum Himalaja-fjöllunum. Þar fór ég í mína fyrstu áfangahlaupakeppni. Þar voru sex hlaupadagar, samtals 200 kílómetrar í miklu fjalllendi, hlaupið í áföngum. Þetta var eitt skemmtilegasta ferðalag sem ég hef upplifað, að fá að kynnast nýju landi á hlaupum og sjá ótrúlega mikið og margt sem maður myndi aldrei sjá nema í einhvers konar svona viðburði.

Þetta er fámenn keppni en samt góð keppni. Það var allt lagt í það að vinna þessa keppni í Bútan,“ segir Elísabet. Og það tókst henni. Þar með fæddist hugmyndin um að fara í Góbí-hlaupið. „Hlaupið í Bútan var gott búst, gaf mér ótrúlega mikið. Stuttu eftir það ákvað ég að fara í þetta Góbí-hlaup og þá var það orðið aðalmarkmiðið strax eftir Laugavegshlaupið. Ég beið eftir að það kláraðist þannig að ég gæti bara einblínt á þetta Góbí-hlaup. Allar keppnir í aðdragandanum voru hugsaðar sem æfingar fyrir það. Góbí-hlaupið stóð auðvitað uppúr á árinu.“

Elísabet náði að ljúka hlaupinu á undir 100 klukkustundum, eða 97 klukkustundum og 11 mínútum nákvæmlega. „Þetta var frábært hlaupaár og það var algjör bónus að það hafi tekist svona vel. Ég var búin að setja mér háleitt markmið. Ég var búin að setja mér það markmið að fara þetta á undir 100 klukkustundum. Það má alveg segja að vikuna áður þá var ég alveg að efast um þetta, ég væri að teygja mig aðeins of langt og ætti ekki að vera með svona brjálaðar væntingar. Þú veist ekkert hvort þú nærð þessu fyrr en það er mjög langt liðið á hlaupið sjálft. En það tókst.“

Hún segir skipulag skipta öllu máli í svona hlaupum, en setur hún sér skrifleg markmið?

„Ég á rosalega erfitt með að plana fram í tímann. Það fer bara allur fókus á næsta verkefni. Svo veit maður ekki alveg hvað það leiðir af sér. Auðvitað er mjög gott ef maður nær að setja niður markmið fyrir árið, ef þú getur. En svo finnst mér líka gaman að hafa smá óvissu og geta verið sveigjanleg.

Fyrir mér snýst þetta ekki endilega um að setja upp markmið fyrir allt árið, en það þarf alltaf að vera eitthvað markmið. Ég hélt kannski áður að markmiðin skiptu ekki svona miklu, en þau skipta öllu máli. Þau gera þetta skemmtilegt. Ef þú ert að stunda eitthvað þá er bara miklu skemmtilegra að hafa eitthvað að stefna að. Annars hafa æfingarnar ekki eins mikinn tilgang. Hver æfing hefur sinn tilgang.“

Líf eftir Góbí-hlaupið

Eftir gott ár á hlaupum og mögnuð afrek liggur beint við að spyrja Elísabetu hvort sé hægt að ná lengra á hlaupunum.

„Já, þú getur alltaf fundið eitthvað meira. En það þarf ekki endilega að snúast um kílómetrafjöldann. Það er alveg hægt að setja sér spennandi markmið. Það er alveg líf eftir Góbí,“ segir hún og hlær.

Og hún er til í að deila markmiðum ársins 2019 með lesendum. „Ég ætla að fara í áskorun í Hong Kong 6. febrúar. Mér finnst þetta tilvalið markmið þegar maður er stigin uppúr Góbí-þokunni.

Þetta heitir Hong Kong Four Trails Ultra Challenge. Þetta er ekki keppni, þetta er bara áskorun fyrir fólk sem vill gera eitthvað sem það heldur að sé ómögulegt.“

Hlaupnar eru fjórar lengstu gönguleiðirnar í Hong Kong, hver á eftir annarri, alls 298 kílómetrar. „Það er engin umgjörð. Maður þarf algjörlega að sjá um sig sjálfur og þarf að rata. Maður má bara fá aðstoð á milli leiða, alveg þangað til maður byrjar á næstu gönguleið.

Þetta er mjög nördalegt en vel þekkt áskorun í hlaupasamfélaginu í Asíu. Svona ákveðið fyrirbæri sem maður er búin að heyra um lengi. En þetta er ekkert rosalega vinsælt því þetta er soldið glórulaust. Hugmyndin er að þú ljúkir þessu ekki nema þú náir að gera þetta á 60 klukkutímum eða minna,“ segir hún en engri konu hefur tekist að ljúka þessu innan tímamarkanna.

Alls eru 30 manns skráðir til leiks í þessa áskorun í ár og Elísabet er þegar byrjuð að undirbúa sig.

„Það sem er skemmtilegast við þetta er þessi heimavinna, að undirbúa þetta ferðalag. Ég fæ ekki tækifæri til að hlaupa þessar leiðir áður, en hef reyndar hlaupið eina af þessum leiðum í aðra áttina.

Þarna er mjög sérstakt og flott landslag, mikið af tröppum og brekkum. Ég þarf að vinna mikla heimavinnu varðandi rötun og landafræði. Þú gerir þetta ekki nema vera búin að sjá þetta algjörlega fyrir þér. Þannig að það sé sem minnst sem kemur á óvart.

Ég verð að ná að æfa rökrétt þannig að það skili sér.“

Hún segir að helsta áskorunin vegna þessa hlaups felist í raun í undirbúningnum og þeirri staðreynd að hann fari allur fram á Íslandi, óravegu frá Hong Kong.

Hlaupin eru fyrirferðarmikil hjá Elísabetu en þegar hún er ekki á hlaupum starfar hún sem aðjúnkt í næringarfræði við Háskóla Íslands ásamt því að halda hvatningarfyrirlestra fyrir fyrirtæki og hópa. Hún er einnig þjálfari og einn af eigendum Náttúruhlaupa. Náttúruhlaup bjóða, líkt og nafnið gefur til kynna, námskeið í því að hlaupa í náttúrunni, utan vega.

Elísabet heldur utan um hóp sem stefnir að því að taka þátt í Laugavegshlaupinu næsta sumar og ætlar auk þess að fara með 20 manna hóp í hlaupaferð til Frakklands næsta sumar þar sem hlaupið verður umhverfis Mont Blanc.

„Hlaupin taka mjög mikið pláss en á sama tíma er maður að reyna að bæta sig á öðrum sviðum. Stærstu markmiðin verða hlaupatengd á næsta ári en maður reynir að bæta sig á öðrum sviðum líka. Líkaminn aðlagast álaginu og maður nær lengra og lengra í öllu sem maður er að gera. Það er stórt markmið hjá mér að sinna Náttúruhlaupunum og Laugavegsnámskeiðinu vel og hjálpa öðru fólki að ná sínum markmiðum.

Hugmyndin með Náttúruhlaupunum er að ná að draga fleiri með sér í þetta. Kenna fólki að njóta hreyfingar úti og leyfa því að kynnast því að ferðast og hreyfa sig. Hlaupaferðirnar eru skemmtilegar, þetta þarf ekki alltaf að vera keppni.“

Náttúruhlaup eru að hefja sjötta starfsárið sitt en Elísabet sjálf hefur stundað utanvegahlaup í tíu ár. „Maður sér alveg stórkostlega aukningu í áhuga á þessari tegund af þjálfun. Þetta er svo góð hreyfing og þú ert að sameina svo margt, að vera úti í náttúrunni, hreyfa þig frjálslega, skoða landslag, þetta er svo fjölbreytt. Meira eins og að dansa en að hlaupa.

Við erum að ná til fólks sem hefur kannski aldrei hlaupið áður, sem er að taka sín fyrstu skref og hefur jafnvel ekki verið að hreyfa sig mikið áður. Laugavegshóparnir mínir síðustu tvö ár hafa mestmegnis verið fólk sem byrjaði bara í þessum utanvegahlaupum fyrir nokkrum árum en hafði ekki endilega hlaupið mikið fyrir það.“

Hún segir það ánægjulegt að sjá hversu mikið þessi tegund hlaupa hafi þróast á síðastliðnum áratug en myndi samt vilja sjá fleira yngra fólk. „Eitt sem við myndum vilja sjá væri yngra fólk, háskóla- eða jafnvel menntaskólafólk. Það væri gaman að fá fleira fólk undir þrítugu til að mæta á æfingar hjá okkur.“

Markmiðið um að ljúka áskoruninni í Hong Kong tekur drjúgan tíma hjá Elísabetu þessa dagana og svo verður að koma í ljós hverju fram vindur með aðrar keppnir á árinu. Elísabet vill þó ekki setja of mikinn fókus á kílómetrafjölda og keppnir. Ferðalögin og það að sjá heiminn skiptir hana meira máli. „Ef ég gæti myndi ég vilja hlaupa alls staðar í heiminum, sjá hvernig er að hlaupa á mismunandi stöðum. Það er það skemmtilegasta við þetta, að fá tækifæri til að sjá heiminn á hlaupum.“