Þróun Verkefnið gengur út á sjálfvirk umhverfisvæn gámaskip.
Þróun Verkefnið gengur út á sjálfvirk umhverfisvæn gámaskip. — Morgunblaðið/Eggert
Flutningafyrirtækið Samskip hefur verið valið til að leiða verkefni þar sem þróa á næstu kynslóð sjálfbærra skipaflutninga á styttri sjóleiðum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Flutningafyrirtækið Samskip hefur verið valið til að leiða verkefni þar sem þróa á næstu kynslóð sjálfbærra skipaflutninga á styttri sjóleiðum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Verkefnið nefnist „Seashuttle“ og er styrkt af norskum stjórnvöldum um nálægt 800 milljónir íslenskra króna, samkvæmt tilkynningunni.

Þar segir einnig að verkefnið gangi út á að hanna sjálfvirk gámaskip sem gefa ekki frá sér mengaðan útblástur, en eru um leið hagkvæm.

Hluti af mun stærra verkefni

Þá segir að „Seashuttle“ sé eitt sex verkefna í PILOT-E þróunarverkefninu, sem í heildina nýtur 100 milljóna evra stuðnings, um 11,6 milljarða króna.

Að því komi meðal annars Rannsóknaráð Noregs, Innovation Norway og Enova. „Verkefnið snýst um að flýta hönnun og nýtingu tækni sem henti umhverfisvænum iðnaði framtíðar. Að fjármögnun Seashuttle standa fjögur norsk ráðuneyti, ráðuneyti matvæla og fiskveiða; loftlags og umhverfis; jarðolíu og orku; og samgangna og fjarskipta,“ segir í tilkynningunni.

Are Grathen, framkvæmdastjóri Samskipa í Noregi, segir í tilkynningunni að félagið sé himinlifandi yfir því að taka forystu í þessum málum. „Það sem greinir þetta verkefni frá öðrum og verður lykillinn að velgengni þess er samsetning eldneytis og tækni sem mun gera það samkeppnisfært í kostnaði við hlið núverandi lausna,“ segir Grathen m.a. tobj@mbl.is