Úr heimildarþættinum Gerska ævintýrinu.
Úr heimildarþættinum Gerska ævintýrinu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gerska ævintýrið nefnist heimildarþáttur sem sýndur verður á RÚV í kvöld, sunnudagskvöld, og fjallar um ævintýri Íslendinga á HM í Rússlandi í sumar.

„Þetta er okkar ferðalag í gegnum þessar borgir, Moskvu, Volgograd og Rostov. Auðvitað snýst myndin um fótbolta en samt sem áður er enginn fótbolti sýndur í henni. Eigum við ekki að segja að þetta sé HM utan vallar,“ segir Guðmundur Björn Þorbjörnsson, fréttamaður og höfundur heimildarmyndarinnar Gerska ævintýrið ásamt Grími Jóni Sigurðssyni myndatökumanni. Þriðja hjólið undir vagninum er svo Karl Newman, sem klippti efnið.

Guðmundur flutti fréttir frá HM fyrir RÚV sl. sumar og þeir Grímur voru með daglegan hlaðvarpsþátt, sem einnig hét Gerska ævintýrið. Í þættinum í kvöld er saga keppnisstaðanna sögð í bland við stemningslýsingu en að vonum hverfðist allt um fótbolta þar eystra á þessum tíma. „Auk þess að skoða borgirnar var það okkar hlutverk að finna andann í fólkinu á götunni; hvaða væntingar fór það með og hvernig upplifði það mótið? Ég held að við höfum verið einu íslensku fjölmiðlamennirnir sem ekki ferðuðust með landsliðinu og bjuggu í bænum sem þeir æfðu í við Svartahafið. Við fórum út í þetta verkefni með það að augnamiði að nálgast þetta frá svolítið öðru sjónarhorni en venjulega íþróttaumfjöllun, kannski með smá snert af kaldhæðni. En svo þegar nær dró leikdegi breyttumst við báðir í harða stuðningsmenn og allur töffaraskapur hvarf samstundis,“ segir Guðmundur sposkur.