Helga Jónsdóttir fæddist 9. febrúar 1932 á Akureyri. Hún lést á Öldrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 27. desember 2018.

Foreldrar hennar voru Svanlaug Jónsdóttir, f. 6. mars 1896 á Heiði í Gönguskörðum, Skagafirði, d. 4. október 1936. Hún sótti hómópatanámskeið á Englandi 1929 og auk þess kom hún víða við í kennslu barna og ungmenna. Faðir Helgu var Jón Jónasson, f. 11. nóvember 1899 á Hólum í Öxnadal, d. 23. maí 1964. Hann varð búfræðingur frá Hólum 1921. Einnig fór hann til náms í Kaupmannahöfn 1925. Fékkst við smábarnakennslu á Akureyri 1925-1940, stundaði síðan búskap á Eyvindarstöðum í Saurbæjarhreppi og Kambi, Öngulsstaðahreppi, 1940-1963, fluttist þá til Akureyrar. Helga var eina barn þeirra hjóna. Hún varð gagnfræðingur frá GA, einnig lauk hún námi frá Húsmæðraskólanum á Laugalandi 1953. Eftir að hún fluttist til Akureyrar 1963 vann hún mörg ár hjá KEA, lengst af við símaafgreiðslu á skiptiborði KEA. Eiginmaður Helgu var Eiður Reykjalín Stefánsson, f. 24. júlí 1926, d. 8. ágúst 2016. Þau gengu í hjónaband 20. apríl 1974.Þau áttu sitt heimili á Lögbergsgötu 1, Akureyri.

Útför Helgu fer fram frá Höfðakapellu í dag, 8. janúar 2019, klukkan 10.

Helga Jónsdóttir fæddist 9. febrúar 1932 neðst á Gilsbakkaveginum á Akureyri. Hún lést 27. desember 2018.

Foreldrar hennar voru þau Svanlaug Jónsdóttir smábarnakennari og Jón Jónasson frá Engimýri, smábarnakennari. Þau ráku um tíma smábarnaskólann á árunum rétt fyrir og eftir fæðingu Helgu. Svanlaug, móðir Helgu, kom úr Skagafirði og lærði til hómópata. Hún var meðlimur Sjónarhæðarsafnaðarins til dauðadags en hún lést úr sykursýki 4. október 1936. Eftir andlát Svanlaugar lá leið Jóns með dóttur þeirra fram í Eyjafjarðarsveit þar sem búskapurinn og bændastörfin réðu öllu í lífi þeirra. Hann bjó á Kambi 1940 og þar undi Helga barnæsku sinni vel fram til ársins 1963. Helga lauk bæði barnaskóla og gagnfræðaskólanum en framhaldsmenntunin varð Húsmæðraskólinn á Laugalandi veturinn 1952-1953.

Áratug síðar fluttist Helga ásamt föður sínum til Akureyrar að Lögbergsgötu 1. Hún var orðin símamær KEA-samsteypunnar og varð þannig rödd hins mikla bákns um langan tíma.

Það voru nokkrir aðrir áhrifavaldar í lífi Helgu. Þeir voru föðursystur hennar sem bjuggu líka á Lögbergsgötu 1 og svo Hvítasunnusöfnuðurinn Fíladelfía á Akureyri. Henni var boðið á 20 ára afmæli safnaðarins 1956 og eftir það var framtíðin ráðin. Það kirkjustarf studdi hún með ráðum og dáð.

Ég kynntist Helgu ekki fyrr en árið 2001 þegar ég flutti frá Vestmannaeyjum til Akureyrar. Okkur varð vel til vina. Ég fékk að vita um skyldleika hennar við tengdamömmu og mig grunar að ég hafi fengið betri móttökur vegna þeirra tengsla enda var Helga frændrækin.

Helga giftist Eiði Reykjalín Stefánssyni frá Gauksstöðum á Skaga hinn 20. apríl 1974 en þeim varð ekki barna auðið. Eiður var bóndi af Guðs náð og flinkur hestamaður. Hann bauð mér í útreiðartúr sem sýndi mér augljóslega hve frábær tök hann hafði á gæðingunum.

Það var í gegnum safnaðarstarf Hvítasunnusafnaðarins sem leiðir okkar lágu saman og í hvert sinn sem ég kom í heimsókn var lesið úr hinni helgu bók og beðið fyrir landi og þjóð.

Það var ánægjulegt fyrir mig að kynnast þessum hjónum með baráttuanda trúarinnar. Ég ólst upp við þann anda í Betel Vestmannaeyjum og hann var einnig hjá Helgu og Eiði.

Eiður lést hinn 8. ágúst 2016 og þá tapaði Helga „hjartamanninum“ sem hún kallaði svo. Hugur hennar og áhugi trúarinnar færðist enn meira á himin Guðs, staðinn sem okkur hlotnast þegar lífinu hér lýkur. Trúin á Jesú og dauði Eiðs skerptu vonina hjá Helgu. Þannig kvaddi hún lífið með von trúarinnar.

Snorri í Betel.