Óheppinn Valsmaðurinn Kristinn Freyr Sigurðsson verður frá keppni næstu mánuðina.
Óheppinn Valsmaðurinn Kristinn Freyr Sigurðsson verður frá keppni næstu mánuðina. — Morgunblaðið/Valli
Kristinn Freyr Sigurðsson, leikmaður Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu, er á leið undir hnífinn á ný eftir að aðgerð sem átti að vera smávægileg hefur dregið dilk á eftir sér. Kristinn var meiddur í hné en aðgerð sem hann fór í 10.

Kristinn Freyr Sigurðsson, leikmaður Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu, er á leið undir hnífinn á ný eftir að aðgerð sem átti að vera smávægileg hefur dregið dilk á eftir sér.

Kristinn var meiddur í hné en aðgerð sem hann fór í 10. desember átti að laga það. Ekki var um stóra aðgerð að ræða, en eftir að sýking komst í skurðinn hefur hann þurft að dvelja á sjúkrahúsi með sýklalyf í æð. Ekki sér fyrir endann á því og nú er hann á leið í aðra aðgerð.

„Hann er að fara í aðgerð núna á miðvikudaginn og við vitum ekki meira fyrr en eftir um mánuð. Hann var óheppinn en þetta er bara það sem fylgir fótbolta og ekkert í því sem við getum gert,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, við Morgunblaðið í gær.

Kristinn var í stóru hlutverki í liði Íslandsmeistaranna á síðasta tímabili en hann skoraði sex mörk og lagði upp tíu í 21 leik sem hann spilaði í Pepsi-deildinni. Kristinn var kjörinn besti leikmaður deildarinnar 2016 en lék síðan með Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni 2017.