Bernharð Stefánsson fæddist 8. janúar 1889 á Þverá í Öxnadal. Foreldrar hans voru hjónin Stefán Bergsson, f. 1854, d. 1938, bóndi þar, og Þorbjörg Friðriksdóttir, f. 1856, d. 1934 húsmóðir.

Bernharð Stefánsson fæddist 8. janúar 1889 á Þverá í Öxnadal. Foreldrar hans voru hjónin Stefán Bergsson, f. 1854, d. 1938, bóndi þar, og Þorbjörg Friðriksdóttir, f. 1856, d. 1934 húsmóðir.

Bernharð stundaði nám í Gagnfræðaskólanum á Akureyri 1904-1906 og í Flensborgarskóla 1907-1908 og lauk þaðan kennaraprófi.

Bernharð var barnakennari í Skriðuhreppi 1908-1910 og í Öxnadal 1910-1923, bóndi á Þverá í Öxnadal 1917-1935 og útibússtjóri Búnaðarbanka Íslands á Akureyri 1930-1959. Hann var oddviti Öxnadalshrepps 1915-1928, sýslunefndarmaður 1922-1928 og í stjórn Kaupfélags Eyfirðinga 1921-1962. Hann var alþingismaður Eyfirðinga fyrir Framsóknarflokkinn 1924-1959, sat á 44 þingum alls. Hann var forseti efri deildar Alþingis 1947-1953 og 1956-1959. Hann var fulltrúi í Norðurlandaráði frá stofnun þess 1952-1959. Hann átti sæti í milliþinganefnd um landbúnaðarmál 1927, milliþinganefnd um tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga 1936 og milliþinganefnd um bankamál 1937.

Bernharð var um langt skeið forustumaður í ungmennafélagi sveitar sinnar og gekk einnig á hönd samvinnuhreyfingunni í héraði sínu og var kosinn til trúnaðarstarfa á þeim vettvangi. Hann var formaður lestrarfélags sveitar sinnar.

Í minningarorðum á Alþingi um Bernharð segir: „Hann var traustur og vinsæll fulltrúi héraðs síns, en lagði einnig margt til annarra þjóðmála. Í ræðustóli flutti hann mál sitt skorinort og skilmerkilega, rólega og rökfast, var drengilegur í málflutningi, en fastur fyrir og lét ógjarnan hlut sinn. Hann var vel ritfær og langminnugur“ en hann samdi Endurminningar í tveimur bindum 1961 og 1964.

Eiginkona Bernharðs var Hrefna Guðmundsdóttir, f. 1895, d. 1981 húsmóðir. Börn: Berghildur, f. 1917, d. 2008, Steingrímur, f. 1919, d. 2005, og Erla, f. 1927, lést sama ár.

Bernharð lést 23. nóvember 1969.