[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Guðni Bergsson, formaður KSÍ, tilkynnti í gær að hann væri tilbúinn í formannsslag við Geir Þorsteinsson , fyrrverandi formann sambandsins, sem boðaði framboð sitt á laugardaginn.

* Guðni Bergsson, formaður KSÍ, tilkynnti í gær að hann væri tilbúinn í formannsslag við Geir Þorsteinsson , fyrrverandi formann sambandsins, sem boðaði framboð sitt á laugardaginn. „Ekki átti ég nú von á að fara í formannsslag við heiðursformann sambandsins. Það hefur verið unnið gott starf hér innan KSÍ síðustu tvö árin. Höfum verið framsækin og kraftmikil – ég er til í baráttuna,“ skrifaði Guðni á Twitter.

*Vængir Júpíters urðu um helgina Íslandsmeistarar innanhúss í meistaraflokki karla í knattspyrnu annað árið í röð. Vængir Júpíters höfðu betur gegn Augnabliki í úrslitaleiknum 4:3 eftir að hafa lagt Víking frá Ólafsvík að velli 5:4 í undanúrslitum mótsins. Grafarvogsliðið hefur þar með á ný tryggt sér sæti í Evrópukeppninni í innifótbolta en liðið tók þátt í henni í fyrsta skipti síðasta sumar.

* Tom Thibodeau var rekinn úr starfi þjálfara bandaríska körfuknattleiksliðsins Minnesota Timberwolves í fyrrinótt. Það var gert strax eftir góðan útisigur á Los Angeles Lakers, 108:86. Thibodeau hefur þjálfað Minnesota frá 2016 en liðið er í 11. sæti af 15 liðum í Vesturdeild NBA með 19 sigra í fjörutíu leikjum.

*KR-ingar hafa fengið nýjan bandarískan körfuboltamann í sínar raðir, samkvæmt RÚV. Sá heitir Mike DiNunno , 28 ára leikstjórnandi, sem lék síðast með Beroe í Búlgaríu og áður með Iraklis í Grikklandi og Cheshire Phoenix í Bretlandi. Hann er með ítalskt ríkisfang og spilar því sem Evrópubúi, þannig að hann og landi hans frá Bandaríkjunum, Julian Boyd , mega vera báðir inni á vellinum á sama tíma.

*Evrópumeistarar Real Madrid eru með danska miðjumanninn Christian Eriksen úr Tottenham í sigtinu og ætla að reyna að fá hann til liðs við sig í sumar. Bjartsýni ríkir í herbúðum Real Madrid um að fá Danann að því er fram kemur í spænska blaðinu AS. Eriksen er samningsbundinn Tottenham til ársins 2020 og hefur hann ekki viljað framlengja samning sinn við Lundúnaliðið þrátt fyrir að hafa fengið mjög gott tilboð frá félaginu.