Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Um 9,8 milljónir farþega fóru um Keflavíkurflugföll í fyrra. Það er metfjöldi og til dæmis tvöföldun frá árinu 2015. Hins vegar eru þetta töluvert færri farþegar en Isavia spáði að færu um völlinn í spám sínum í nóvember 2017 og maí 2018.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, bendir á að óvissa sé jafnan um síðasta ársfjórðung þegar farþegaspárnar eru gerðar. Gera megi ráð fyrir að gengi krónu hafi haft einhver áhrif á að farþegar voru færri í fyrra en Isavia spáði. Þá verði að horfa til þess að breytingar hafi orðið í flugrekstri á Íslandi í fyrra, bæði hjá WOW air og Icelandair.
Mun skýrast með WOW air
„Hvað spá fyrir árið 2019 varðar þá verður hún tilbúin innan tíðar þegar áform Wow air og mögulega annarra félaga skýrast,“ segir hann.Isavia kynnti fyrir nokkrum árum langtímaáætlun um þróun Keflavíkurflugvallar fyrir tímabilið 2015-2040. Þar var að finna áætlun um þróun farþegafjölda á tímabilinu. Skv. henni áttu 10 milljónir farþega að fara um völlinn 2030. Umferðin í fyrra var því næstum jafn mikil og þarna var áætlað að hún yrði 2030.
Samkvæmt bráðabirgðaspá Isavia fyrir fyrstu þrjá mánuði þessa árs munu þá 8,9% færri farþegar fara um völlinn en sömu mánuði í fyrra.
Fækkunin þessa mánuði verður -1,8%, -9,6 og -14,3%
Rúmlegar 2,3 milljónir
Ferðamálastofa áætlar að 2,316 milljónir brottfara erlendra farþega frá landinu hafi verið í fyrra, eða um 5,5% fleiri en árið 2017. Aukningin milli ára 2016 og 2017 var 24,2%.Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir aðspurður útlit fyrir 5% árlega fjölgun ferðamanna á næstu 3-4 árum. Fjöldinn í ár sé í takt við væntingar. Hann segir það vekja athygli að Isavia hafi ekki gefið út farþegaspá fyrir árið 2019. Isavia hafi enda bestu gögnin.