Merkilegt Í Uffizi í Flórens er nú sýning á Codex Leicester, bókverki Da Vinci.
Merkilegt Í Uffizi í Flórens er nú sýning á Codex Leicester, bókverki Da Vinci.
Í ár eru 500 ár frá dauða ítalska endurreisnarmeistarans Leonardos da Vinci en hann lést í Amboise í Frakklandi 2. maí árið 1519. Dánarafmælisins er og verður víða minnst.

Í ár eru 500 ár frá dauða ítalska endurreisnarmeistarans Leonardos da Vinci en hann lést í Amboise í Frakklandi 2. maí árið 1519. Dánarafmælisins er og verður víða minnst. Þrátt fyrir að Da Vinci hafi tekið sér margt fyrir hendur er hann þó þekktastur fyrir myndlistarsköpunina og er sjónum beint að henni. Listunnendur hafa þegar getað séð merkar sýningar á verkum Da Vinci sem settar hafa verið upp í tilefni ártíðarinnar. Í Teylers-safninu í Hollandi lauk um liðna helgi rómaðri sýningum á teikningum eftir meistarann og 20. þessa mánaðar lýkur í Uffizi-safninu í Flórens annarri og ekki síður lofaðri sýningu þar sem getur m.a. að líta 72 myndskreyttar síður úr svokölluðu Codex Leicester-bókverki sem Da Vinci vann á árunum 1504 til 1508 og er í eigu Bills Gates.

Safn bresku konungsfjölskyldunnar á meira en 500 teikningar eftir Da Vinci og verða settar upp á þeim nokkrar sýningar. 200 verða sýndar í Buckingham-höll í maí og 80 til í Holyroodhouse í nóvember. Þá verða 144 teikningar sýndar samtímis á 12 öðrum sýningum víðs vegar um Bretland. Louvre-safnið í París hýsir ekki bara þekktasta verk Da Vinci, Monu Lisu, heldur á það fimm önnur málverk hans. Síðar á árinu verður sett þar upp mikil sérsýning og er stefnt á að sýna fleiri verk eftir Da Vinci en áður hafa sést á einum stað.