[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Anna Björk Kristjánsdóttir varð í gær fyrst íslenskra knattspyrnukvenna til að semja við atvinnulið í Hollandi.

Fótbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Anna Björk Kristjánsdóttir varð í gær fyrst íslenskra knattspyrnukvenna til að semja við atvinnulið í Hollandi. PSV frá Eindhoven er fyrir löngu orðið þekkt karlalið í Evrópu en tefldi ekki fram kvennaliði fyrr en fyrir sex árum. Síðan þá hefur framgangurinn verið hraður og þegar Anna Björk skrifaði undir hjá PSV í gær var liðið í efsta sæti í deildinni.

„Í fyrra hafnaði liðið í 5. sæti. Sú sem tók við sem formaður hreinsaði til og tókst að breyta dýnamíkinni í hópnum. Hún vildi búa til betri stemningu í liðinu og náði í sterka persónuleika. Mér finnst þetta vera skemmtileg hugsun hjá henni og liðinu hefur gengið vel. Liðið hefur unnið hvern leikinn á fætur öðrum að undanförnu og það hjálpaði mér að einhverju leyti að taka ákvörðun,“ sagði Anna þegar Morgunblaðið náði sambandi við hana í gær.

Nokkuð er síðan Anna gerði upp hug sinn en hún gaf Hollendingunum munnlegt samþykki í desember. Anna komst í gegnum jólaboðin án þess að tala af sér en Hollendingarnir vildu ekki tilkynna félagaskiptin fyrr en í gær.

Einnig áhugi í Svíþjóð

„Ég ræddi fyrst við þau um miðjan nóvember og við náðum samkomulagi um miðjan desember. Ég heyrði einnig frá nokkrum liðum úr efstu deildinni í Svíþjóð. Sum þeirra voru áhugaverð en ég hef verið í Svíþjóð í þrjú ár. Á þessum tímapunkti fannst mér mest spennandi að prófa eitthvað nýtt þótt sænska deildin sé skemmtileg. Ég hefði ekki haft neitt á móti því að vera áfram í Svíþjóð ef það hefði orðið niðurstaðan en mér finnst þetta fínn tími til að prófa eitthvað nýtt. Einnig er það ágætur tímapunktur fyrst okkur í landsliðinu tókst ekki að komast á HM. Sænska deildin mun ekki ná nema sjö leikjum þar til gert verður hlé og mig langaði til að prófa að spila í vetrardeild,“ sagði Anna sem stígur varlega til jarðar á nýjum áfangastað og samdi við PSV fram á sumarið. Hollendingarnir vildu semja við hana til sumarsins 2020 en sættust á að gera fimm mánaða samning með því skilyrði að Anna gæfi þeim svar um framhaldið áður en lokakeppni HM hefst í júní.

„Deildinni lýkur óvenju snemma eða í maí og er það vegna HM. Ég þarf að gefa svar áður en deildin klárast um hvort ég vilji vera áfram. Ég vildi ekki gera lengri samning vegna þess að ég veit lítið um deildina. Hún er að verða betri með hverju ári og mikill vöxtur er í kvennaboltanum hérna í Hollandi eftir að þær hollensku urðu Evrópumeistarar. Mér fannst samt sem áður of mikil áhætta að gera langan samning en tek það fram að það sem ég hef séð til PSV er tipptopp,“ sagði Anna Björk ennfremur.

Fjögurra stiga forskot

PSV er í toppsæti deildarinnar. Liðið er með 37 stig eftir 14 leiki, fjórum stigum meira en Twente sem er í öðru sætinu. Níu lið skipa efstu deildina í Hollandi og eru spilaðar 24 umferðir og spila fimm efstu liðin til úrslita um meistaratitilinn. Hlé var gert á deildinni fyrir jól en keppni hefst að nýju í henni 1. febrúar.

Anna Björk er 29 ára gömul og leikur í stöðu miðvarðar. Hún á að baki 40 leiki með íslenska A-landsliðinu og hefur leikið með öllum yngri landsliðunum. Anna hóf sinn feril með KR sem hún lék með frá 2004-08 en fór þaðan til Stjörnunnar sem hún lék með frá 2009 til 2016. Frá Stjörnunni fór hún til sænska liðsins Örebro og þaðan til Limhamn Bunkeflo.