Sala Í tvö þúsund fermetra vöruhúsi Heimkaupa í Smáranum eru 50 þúsund vörunúmer í boði.
Sala Í tvö þúsund fermetra vöruhúsi Heimkaupa í Smáranum eru 50 þúsund vörunúmer í boði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnúss
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Þrjú hundruð sendingar eru fluttar að jafnaði á degi hverjum frá vöruhúsi Heimkaupa á Smáratorgi, að sögn Guðmundar Magnasonar, framkvæmdastjóra netverslunarinnar.

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Þrjú hundruð sendingar eru fluttar að jafnaði á degi hverjum frá vöruhúsi Heimkaupa á Smáratorgi, að sögn Guðmundar Magnasonar, framkvæmdastjóra netverslunarinnar. Útlit er fyrir að heimsendingum fjölgi enn í kjölfar þess að byrjað er að bjóða upp á alla helstu matvöru í versluninni. „Nú erum við komin í matvöruna með stóru emmi. Við bjóðum alla matvöru, og þegar kemur að vöruvali er verslun okkar orðin fjórfalt stærri en hefðbundinn stórmarkaður,“ segir Guðmundur.

Langstærsti stórmarkaðurinn

Hann segir að mjög góður stórmarkaður í dag bjóði um tólf þúsund vörunúmer, en Heimkaup bjóða nú fast að fimmtíu þúsund vörunúmer. „Við erum þar með orðin langstærsti stórmarkaður landsins.“

Alla erlenda matvöru flytur Heimkaup inn frá einu og sama vöruhúsinu í Bretlandi, en innlendar vörur koma frá innlendum framleiðendum.

Spurður um helsta samkeppnisaðilann á markaðnum, segir Guðmundur að verðsamkeppnin standi helst yfir við Nettó. „Við bjóðum hinsvegar margt sem þeir bjóða ekki. Frí heimsending er boðin fyrir öll kaup yfir 4.900 krónum. Þá geta kaupendur séð síðasta söludag á vörum sem þeir eru að kaupa og sjálfvirkur 50% afsláttur kemur inn þegar vara nálgast síðasta söludag – til að forðast matarsóun. Þá geta kaupendur valið nákvæma þyngd á kjötvörunni sem þeir eru að kaupa hjá Heimkaup.is. Þetta er nýjung sem hefur ekki verið í boði, hvorki hér heima eða erlendis.“

Guðmundur segir að á meðan aðrir stórmarkaðir séu að minnka vöruframboð sitt aukist það hjá Heimkaupum. „Við bjóðum til dæmis 250 tegundir í vöruflokknum te og kaffi. Það er töluvert meira en aðrar verslanir geta státað af.“

Guðmundur segir að fyrirtækið nái til um 80% þjóðarinnar í heimsendingum samdægurs. „Hægt er að velja hvenær dagsins sendingin á að koma og við sendum samdægurs um allt suðvesturhornið, þar á meðal til Akraness og um allt Reykjanesið.“

Olíufyrirtækið Skeljungur á þriðjung í Heimkaupum. Guðmundur segir að innan skamms geti fólk pantað vörur á Heimkaup.is og sótt þær í sérstaka kassa á Skeljungsstöðvunum hjá Kringlunni, og á Dalvegi.

Brúðan var söluhæst

Aðspurður segir Guðmundur að stefnt sé að því að skila rekstrinum réttum megin við núllið í fyrsta skipti í lok árs 2019, en tekjur félagsins jukust um 50% milli áranna 2017 og 2018 og veltan nam tæpum 1,5 milljörðum króna á síðasta ári.

En rétt að lokum, hvaða vara var söluhæst í Heimkaupum á nýafstaðinni jólavertíð?

„Í stykkjum talið var það Brúðan eftir Yrsu Sigurðardóttur.“

Netverslun
» 3.500 erlend vörunúmer flutt inn beint frá Bretlandi.
» Vöruhús Heimkaupa er í Smáranum og er 2.000 fermetrar að stærð.
» Stefnt er að því að reksturinn skili jákvæðri niðurstöðu í lok árs 2019.
» Með því að bjóða afslátt af vörum sem nálgast síðasta söludag er stuðlað að minni matarsóun.