Bruce Dickinson, söngvari breska bárujárnsbandsins Iron Maiden og flugstjóri með meiru, fór mikinn í bráðskemmtilegri uppistandssýningu í Hörpu skömmu fyrir jól; gerði óspart grín að sjálfum sér og öðrum.

Bruce Dickinson, söngvari breska bárujárnsbandsins Iron Maiden og flugstjóri með meiru, fór mikinn í bráðskemmtilegri uppistandssýningu í Hörpu skömmu fyrir jól; gerði óspart grín að sjálfum sér og öðrum.

Ein sagan sem hann sagði fjallaði um heimsókn nokkurra rokktónlistarmanna í Buckingham-höll, þar sem þeir fengu að hitta Elísabetu Englandsdrottningu og Filippus drottningarmann. Sá síðarnefndi er víðfrægur fyrir hnyttni sína og skondin tilsvör og Dickinson fékk að kynnast því af eigin raun í þessari heimsókn.

Skyndilega stóð Filippus við hliðina á honum og spurði hver hann væri. Þegar Dickinson hafði kynnt sig benti drottningarmaður á mann sem stóð þar álengdar og skar sig aðeins úr hópnum, umboðsmaður Iron Maiden. Stútungsgóður miðaldra karl í góðum holdum. „Einmitt það,“ sagði Filippus, þegar Dickinson hafði gert grein fyrir manninum. „Hann lítur ekki út fyrir að hafa misst af málsverði lengi.“

Að svo mæltu lét drottningarmaður sig hverfa.

Bruce Dickinson er ekki með hávöxnustu mönnum og óttaðist í þessu tilviki að hann myndi fyrir vikið skera sig sjálfur úr hópnum. Til allrar hamingju, frá hans bæjardyrum séð, var þó einn maður í hópi rokkenda sem hann gat „litið niður á“, Roger Daltrey, söngvari hins fornfræga bands The Who.

Hið fornkveðna, margur er knár þótt hann sé smár, á augljóslega við í rokkinu en þessir ágætu menn hafa tekið þátt í að selja á þriðja hundrað milljónir hljómplatna um dagana. Og eru hvergi nærri hættir.

En ljúkum þessu endilega á öðru kvóti í Filippus drottningarmann, þann aldna höfðingja. Í samræðum um hjónaband varð honum einu sinni að orði: „Ef eiginmaður opnar bíldyr fyrir konunni sinni er það annaðhvort nýr bíll eða ný kona.“