Sigríður Ingibjörg Þorgeirsdóttir fæddist á Hæringsstöðum í Árborg 29. júlí 1937. Hún lést 28. desember 2018 á Ljósheimum, Selfossi.

Foreldrar hennar voru Elín Kolbeinsdóttir, f. 12. ágúst 1894, d. 9. mars 1972 frá Vestri-Loftsstöðum í Flóa, og Þorgeir Bjarnason, f. 26. júlí 1890, d. 27. janúar 1981 frá Eyri í Mjóafirði við Ísafjarðardjúp. Systkini Sigríðar eru: Kristján Eldjárn, f. 20. september 1922, d. 20. janúar 2010, Kolbeinn, f. 24. desember 1923, d. 11. febrúar 2007, Bjarni Kristinn, f. 1926, d. 28. janúar 2012, og Sólveig Antonía, f. 13. janúar 1940. Auk þess eignuðust Elín og Þorgeir fimm börn sem öll létust í fæðingu.

Sigríður Ingibjörg giftist árið 1972 Þorsteini Sveinssyni lögmanni, f. 20. desember 1913, d. 6. ágúst 1981. Börn Þorsteins eru: Petrína Ólöf. f. 1941, maki Gunnar Guðmundsson. f. 1941, Jón Ragnar. f. 1942, d. 1997, maki Sigrún Anna Bogadóttir. f. 1943, Óskar Sveinn. f. 1954, d. 2015, maki Ólöf Einarsdóttir. f. 1960, d. 2015, og Elísabet Ingiríður. f. 1959, maki Hörður Magnússon, f. 1956. Börn Þorsteins eiga fjölda afkomenda.

Sigríður Ingibjörg (Stella) var grunnskólakennari í 56 ár, þar af 54 ár við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. Hún vann um tíma við prófarkalestur á dagblaðinu Tímanum en þó mestmegnis við landbúnaðarstörf á Hæringsstöðum hjá foreldrum sínum og bróður en var einnig skráð bóndi þar síðustu árin.

Útför Sigríðar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 8. janúar 2019, klukkan 13.30.

Ég hef náttúrlega þekkt hana Stellu föðursystur mína alla tíð og þegar ég fór í Kennaraskólann var Stella búin að kaupa sér íbúð í Hafnarfirði og bauð mér að koma og vera hjá sér. Ég, sæmileg í íslensku, stóð frammi fyrir að vanda málfar mitt vegna þess hve vel Stella var að sér í íslensku. Í hljóði reyndi ég því beygja með hraði – þf/þgf! Stella hefði þó aldrei leiðrétt mig né nokkra manneskju nema á blaði með penna. Stella var þá að kenna við Öldutúnsskóla og ég fór stundum með henni í skólann; gott fyrir verðandi kennara. Stella var í Guðspekifélaginu og fór ég með henni tvisvar þar á fund. Ekkert botnaði ég í nokkru sem þar fór fram og kaus frekar öldurhús borgarinnar.

Stella ætlaði einu sinni að verða fyrsti kvenpresturinn á Íslandi en afa leist ekkert á það. Hélt ég að Stellu hefði mislíkað það en svo var ekki og sagðist hafa verið honum þakklát fyrir að hún lærði ekki til prests. „Það hefði nú verið ljóta djobbið,“ sagði hún. Eftir frábæran námsárangur í MR fór hún að kenna og síðar í réttindanám. Hún sagði að sér hefði þótt sinn síðasti kennsludagur jafn skemmtilegur og sá fyrsti og gat kennt hvaða bóklega grein sem var frá 1.-10. bekk.

Eftir 56 ár í kennslu hefði forsetinn (þáverandi) mátt veita henni menntaverðlaun, en það þykir kannske ekki vert að verðlauna fólk sem vinnur verk sitt hljóðlega.

Stella var líklega aldei sérstakur ökumaður. Hún átti bíl í einhver ár og einu sinni bauð hún mér í ökuferð út á Bessastaði. Það fór eitthvað óhönduglega og við lentum í hálfgerðu öngstræti bak við fjósið. Öðru sinni vorum við á leið austur í Flóa en í Draugahlíðarbrekkunni (fyrir ofan Litlu kaffistofuna) gaf Stella heldur lítið inn og komst ekki upp. Ég ók því austur.

Stella var ákaflega gjafmild eins og afinn Kolbeinn Þorleifsson sem jós fé sínu á báða bóga. Hún var afar gestrisin eins og afi og amma og til hinstu stundar fylgdist hún vel með öllum ættingjum og Flókagötufólkinu – Þorsteinsfólkinu.

Þegar kraftarnir voru á þrotum þurfti Stella að fara á dvalarheimili. Við brottför frá Hæringsstöðum skaust kötturinn Útivistar-Brandur undir tré úti í garði. Mig grunaði þá að Stella ætti ekki afturkvæmt.

Elsku Stella mín. Ég þakka samfylgdina, vináttu þína við mína fjölskyldu og óska þér góðrar ferðar „...á Guðs þíns fund“.

Þórdís Kristjánsdóttir.

Með örfáum orðum langar mig til að minnast Stellu, góðrar vinkonu minnar til margra ára. Kynni okkar hófust þegar ég hóf kennslu við Öldutúnsskóla haustið 1984. Ég var þá nýútskrifaður sem kennari. Stella var hins vegar búin að vera kennari við skólann allt frá stofnun eða 1961. Við störfuðum aðeins saman í fjögur ár en á þeim tíma veitti hún mér ómetanlega aðstoð einkum hvað íslenskukennslu varðar og ekki minnkaði hjálpsemi hennar eftir að ég réð mig til annars skóla. Oft áttum við gott spjall um stefnur og leiðir í kennslu allt þar til að hún hætti kennslu sjálf vorið 2015. Og ávallt var það ég sem nam en hún sem miðlaði.

Stella var mjög farsæll og góður kennari og hún var vinsæl meðal samkennara og ekki síður nemenda sinna. Hún sýndi nemendum sínum ávallt fyllstu vinsemd og hlýleika, en ákveðni og þolinmæði þegar það átti við. Henni lét vel að umgangast börn og unglinga og starfið lék í höndum hennar. Nú mörgum árum síðar hef ég oft hitt fyrrverandi nemendur okkar og þeir hafa gjarnan minnst Stellu með aðdáun og virðingu.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Þegar litið er til baka er ég ekki í vafa um að hinn góði orðstír sem Stella ávann sér við kennslu mun lengi lifa meðal fyrrverandi nema hennar og samstarfsfólks.

Stuttu eftir að við kynntumst fór ég að heimsækja hana og systkini hennar, Bjarna og Sólveigu, að Hæringsstöðum. Hæringsstaðir standa á fallegu bæjarstæði í miðjum Flóanum. Þaðan er á góðviðrisdögum fallegt útsýni yfir fjallahringinn frá Eyjafjallajökli í austri, norður um og allt til Skálafells í vestri. Úr suðri mátti oft heyra sjávarnið þegar vel viðraði en brimöldugang á vetrum. Þarna var mér og fjölskyldu minni alltaf vel tekið með góðum veitingum sem þær systur sáu um. Það var gaman að koma til þeirra systkina, oft reyndi ég að hlaupa undir bagga með þeim, tók þátt í heyskap og smalamennsku nú eða öðrum störfum. Oft dáðist ég að léttleika Stellu í smalamennsku. Hún hljóp um erfiðar þúfur eins og um jafnsléttu væri að ræða og blés varla úr nös. Í pásum var spjallað og þá gjarnan um pólitík. Þá voru þau Stella og Bjarni í essinu sínu. Flest virtist leika í höndunum á Bjarna og eins var hann bjartsýnismaður og óendanlega þolinmóður. Reyndar áttu þau systkinin það öll sameiginlegt. Eftir fráfall Bjarna í janúar 2012 héldu þær systur búskap áfram eða allt þar til Stella missti heilsuna.

Veikindi Stellu og fráfall var mikið áfall fyrir okkur vini hennar og við söknum hennar mikið. En mest er þó áfallið fyrir Sólveigu sem sér nú á bak síðasta systkini sínu, kærri systur og sálufélaga. Ég samhryggist henni innilega en minningar um góða systur og vinkonu munu lifa með okkur öllum sem hana Stellu okkar þekktu.

Stella! Takk fyrir allt og allt og Guð veri með þér.

Steinarr Þór.

Elsku hjartans Stella okkar.

Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig sem kennari, þegar ég var nemandi við Öldutúnsskóla. Takk fyrir að hafa verið mér fyrirmynd sem kennari þegar við störfuðum saman við sama skóla síðar. Takk fyrir alla samveruna og „sambúðina“ á Öldutúni 7, það sem þú varst góð við börnin mín og okkur öll. Takk fyrir samveruna í sveitinni þinni. Takk fyrir öll fallegu ljóðin þín. Takk fyrir allt og allt, þú einstaka, hæfileikaríka, yndislega kona.

Þú munt alltaf eiga stóran stað í hjörtum okkar.

Hér læt ég fylgja eitt af mínum uppáhaldsljóðum eftir þig, elsku vinkona. Þennan texta þinn sungum við í Kór Öldutúnsskóla í hvert sinn er við gengum inn á tónleika hvort sem var hér heima eða úti í hinum stóra heimi.

Heyr mitt ákall þú ættjörðin kær,

þar sem eldi á jöklana slær,

yfir höf, yfir sund,

líkt og sólin kyssi grund,

þá er söngur minn rödd þín á hverri stund.

(Höf. Sigríður Þorgeirsdóttir)

Innilegar samúðarkveðjur til ættingja og vina.

Hvíl í friði, elsku Stella okkar.

Þín

Halla Eyberg Þorgeirsdóttir og börn.

Sigríður Þorgeirsdóttir er látin. Með örfáum orðum langar mig að kveðja kæra vinkonu og þakka áratuga samfylgd. Sigríður, eða Stella eins og hún var oft nefnd, var í hópi frumherja þegar Öldutúnsskóli tók til starfa árið 1961 og þar kenndi hún í meira en hálfa öld. Fáum árum síðar hóf ég störf við skólann og varð okkur Stellu fljótt vel til vina. Hún unni íslenskri tungu og var bæði ljóðelsk og hagmælt. Fljótlega eftir að Kór Öldutúnsskóla var stofnaður haustið 1965 tók ég að leita til hennar þegar vantaði texta og ljóð við ýmis lög. Brást hún ævinlega vel við kvabbi mínu og stóð þessi samvinna okkar áratugum saman. Hún hafði góða tilfinningu fyrir því að ljóðið félli vel að laginu og var alltaf til í að gera breytingar ef einhverjir hnökrar voru þar á. Mörg þessara laga eru oft sungin, t.d. „María í skóginum“, „Senn kemur vor“ og „Hljóðnar nú haustblær“. Þessi fallegu ljóð sýndu næmi hennar og ást á náttúrunni og hæfileikann til að fanga stemningu í tíma og rúmi. Sum þessara ljóða voru þýðingar, önnur frumort, og lék hvort tveggja í höndum hennar.

En við Stella vorum ekki bara samkennarar heldur bjuggum við í sama húsi um langt árabil og betri nágranna er ekki hægt að hugsa sér. Stella var hógvær og lítillát í allri framgöngu. Oftar en ekki lék milt bros um varir hennar og hún hafði ákaflega góða nærveru. Og nú hefur hún kvatt okkur. Síðustu árin reyndust henni erfið og sjálfsagt varð hún hvíldinni fegin. Við hjónin kveðjum hana með söknuði og þakklæti og vottum ættingjum samúð. Blessuð sé minning Sigríðar Þorgeirsdóttur.

Egill R. Friðleifsson,

Sigríður Björnsdóttir.