Valur
Andri Yrkill Valsson
yrkill@mbl.is
Valsmenn munu stilla upp nokkuð breyttri sóknarlínu er liðið freistar þess að vinna þriðja Íslandsmeistaratitil sinn í knattspyrnu í röð næsta sumar. Liðið samdi við þrjá erlenda leikmenn í gær, tvo sóknarmenn og einn miðjumann. Valsmenn hafa misst dönsku sóknarmennina Patrick Pedersen og Tobias Thomsen frá síðasta tímabili en fara ekki í neina tilraunastarfsemi við að fylla þeirra skarð heldur treysta á leikmenn sem hafa þegar sannað sig hér á landi.
Gary Martin, sem þekkir íslenska boltann út og inn, skrifaði undir þriggja ára samning á Hlíðarenda og er Valur hans fjórða félag hér á landi. Martin kom fyrst hingað til lands árið 2010 og samdi við ÍA, þaðan sem hann fór svo til KR og Víkings R. Hann samdi við Lillestrøm í Noregi árið 2016 og spilaði einnig með Lokeren í Belgíu um tíma síðan hann var síðast hér á landi. Þá skrifaði danski framherjinn Emil Lyng undir tveggja ára samning við Val, en hann skoraði níu mörk fyrir KA í Pepsi-deildinni sumarið 2017. Þriðji leikmaðurinn sem samdi við Val í gær er svo danski miðjumaðurinn Lasse Petry, sem hefur lengst af sínum ferli spilað með Nordsjælland í heimalandinu. Meðal annars undir stjórn Ólafs Kristjánssonar um tíma.
Gary Martin sagði við Morgunblaðið eftir undirskriftina að hann væri kominn í betra lið en Lillestrøm, sem endaði í 12. sæti af 16 liðum í norsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Martin sagði að það hvernig Valsmenn stóðu í norsku meisturunum í Rosenborg undirstriki það. Valur tapaði einvígi sínu naumlega við Rosenborg í 1. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar síðasta sumar, en fór svo alla leið í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar og tapaði þar á útivallarmarki. Það er krafa um titla á Hlíðarenda, en eru Valsmenn farnir að leggja enn meiri áherslu á Evrópukeppnina og horfa jafnvel til þess að komast þar alla leið í riðlakeppni?
„Auðvitað langar okkur að komast langt í Evrópu, eins og öll lið. Það er erfitt en ef þú trúir því ekki sjálfur þá gerist það ekki. Að sjálfsögðu stefnum við að því að fara langt. Evrópukeppnin í fyrra var gríðarlega skemmtileg og við viljum fara lengra,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, við Morgunblaðið.
Auk þess að hafa misst Pedersen, sem skoraði 17 mörk í deildinni í fyrra, og Thomsen frá sér þá er Dion Acoff laus allra mála á Hlíðarenda. Áður hafði Valur fengið Kaj Leo í Bartalsstovu frá ÍBV, Garðar Gunnlaugsson frá ÍA og Birni Snæ Ingason frá Fjölni. Það eru því töluverðar hrókeringar hjá liðinu milli ára en Ólafur hefur þó litlar áhyggjur af breytingunum fram á við.
Alltaf pláss fyrir góða leikmenn
„Ég er lítið að pæla í því. Auðvitað eru einhverjir leikmenn farnir frá okkur og það er bara eins og það er. Við horfum bara fram á veginn og ég held að við verðum með fínt lið. Þessir þrír eiga eftir að bæta leik okkar mikið. Við erum bara að stækka okkar hóp,“ sagði Ólafur.En er hann að horfa í kringum sig eftir frekari liðsstyrk? „Nei, ekki í augnablikinu. En ef það er góður leikmaður sem býðst og vill koma þá tökum við hann.“